Ríkisútvarpið – útvarp allra landsmanna hefur ákveðnum skyldum að gegna. Sumar þeirra uppfyllir það ágætlega, en ég hef í gegnum árin tekið eftir því að þeir eru ekki mikið að leggja land undir fót, sérstaklega ekki íþróttadeildin.
Á hverju ári eru haldin íslandsmót í helstu íþróttagreinum, fótbolta, handbolta og körfubolta. Sjónvarpið fylgist grannt með framvindu mála og segir okkur frá úrslitum leikja um leið og þeir klárast. Á textavarpinu getur maður séð hvernig hefur farið um leið og leikirnir eru búnir og í fréttatíma útvarpsins fáum við oft margar mínútur af íþróttaúrslitum um allan heim. En sjónvarpið stingur svolítið í stúf, þar er vissulega greint frá úrslitunum, en myndefnið er oft sérkennilega valið. Þeir sýna glæsileg tilþrif frá fótbolta og handbolta úti í Evrópu og stundum frá körfubolta í Ameríku, þó það sé nú sjaldséðara. Hins vegar sýna þeir okkur flottar myndir úr leikjum frammara, kr-inga og haukara, og meira að segja stundum fáum við að sjá hvað suðurnesjamenn eru að bralla í sportinu.
En það sem vantar sárlega er að sjónvarp allra landsmanna sýni okkur frá leikjum sem háðir eru fyrir utan 101 Reykjavík eða næsta nágrenni.
Þessa dagana fara fram undanúrslit í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Annars vegar eigast við Keflavík og Grindavík og hins vegar Snæfell og Njarðvík. Þrjú þessara liða eru af suðurnesjum, og þangað finnst íþróttadeild sjónvarpsins lítið mál að skreppa, en Snæfell er lengst vestan af Snæfellsnesi og það er of langt fyrir þreytta íþróttadeild. Það er með ólíkindum hversu lítið er sýnt frá íþróttum utan af landi miðað við það sem sýnt er af íþróttaviðburðum af höfuðborgarsvæðinu. Ég skal ekki segja til um hver ástæðan sé, en ég get ekki ímyndað mér annað en að annað hvort séu: íþróttafréttamennirnir og þeirra fólk einfaldlega of þreytt til að keyra svona langt, enda tekur nú heila tvo klukkutíma að keyra í Stykkishólm, eða Markús Örn hefur gefið út tilskipun um að reyna að spara svolítið bensínið. Ríkisútvarpinu er jú gert að spara nærri 200 milljónir á árinu, og er til betri leið en að spara svolítinn bensínpening?
En að öllu gríni slepptu, það er búið að bora göng undir Hvalfjörðinn og leggja bundið slitlag á helstu þjóðvegi svo þreyttum íþróttamönnum úr Reykjavík er engin vorkunn að skjótast stöku sinnum út á land. Árangur Snæfells í úrvalsdeildinni í körfubolta hefur verið frábær í vetur. Liðið er deildarmeistari og einum sigri á Njarðvík frá því að spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. En íþróttdeild sjónvarpsins virðist standa á sama og þetta er ekkert einsdæmi. Þegar lið utan af landi ná árangri í íþróttum þá fær maður ekki að sjá þau spila nema hugsanlega rétt í úrslitaleiknum, sérstaklega ef hann fer fram í nágrenni við 101 Reykjavík. Ef íþróttafréttamennirnir hjá Sjónvarpinu eru þreyttir, þá skal ég með gleði splæsa á þá kaffi og ginseng. En ef ástæðan er sú að Markús Örn er að spara bensínpening, þá býð ég þeim hér með far á þriðja leik Njarðvíkur og Snæfells í Stykkishólmi á fimmtudaginn. Ég legg af stað um fjögur leytið, hafiði samband.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020