Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna talar fyrir aðgerðum gegn Írak í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
|
Í gær var eitt ár liðið frá því að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í Írak með það fyrir augum að uppræta þá ógn sem stafaði af Saddam Hussein og þeim gjöreyðingarvopnum sem fullyrt var að hann réði yfir. Nú ári síðar hefur hvorki fundist tangur né tetur af gjöreyðingarvopnum Saddams og flest bendir til að stríðið hafi verið háð á röngum – hugsanlega fölskum – forsendum.
Bandamenn unnu auðvitað tiltölulega auðveldan sigur í stríðinu án verulegs mannfalls í eigin röðum. Sigur innrásarliðsins hafði auðvitað þær ánægjulegu afleiðingar að einn grimmasti einræðisherra okkar tíma hrökklaðist frá völdum og var síðar handsamaður. En það var ekki grundvöllur stríðsins, að minnsta kosti ekki þegar Bandaríkjamenn reyndu að fá þjóðir heims og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að leggja blessun sína yfir innrásina.
Íslensk stjórnvöld voru staðföst í stuðningi sínum við áform og aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Sá stuðningur var grundvallaður á þeim upplýsingum sem sagðar voru liggja fyrir um gjöreyðingarvopn Íraka. Ekki verður gengið svo langt að segja að stjórnvöld hér á landi hafi treyst þessum gömlu bandamönnum sínum í blindni, en í öllu falli er ljóst að hér á landi trúðu ráðamenn því að hættan af gjöreyðingarvopnum Saddams væri raunveruleg og aðsteðjandi.
Fátt bendir í dag til þess að sú hafi verið raunin. Meira að segja ráðamenn í Washington hafa dregið verulega í land og nýlega ákváðu bæði Bush og Blair að láta rannsaka sérstaklega hvort leyniþjónustur ríkjanna hafi verið á villigötum í þeirri upplýsingagjöf sem urðu grundvöllur að ákvörðunum leiðtoganna að ráðast á Írak.
Og er þá lærdómurinn sá að ráðamenn eigi að treysta varlega upplýsingum frá leyniþjónustu sinni? Auðvitað ekki. Hið sameiginlega öryggiskerfi sem kveðið er á um í Sáttmála sameinuðu þjóðanna er ekki tilkomið af einhverri tilviljun. Þvert á móti er því beinlínis stefnt gegn stríðsáformum á hæpnum forsendum. Lærdómurnn er því sá að það er öllum þjóðum í hag að fylgja þeim reglum sem mynda hið sameiginlega öryggiskerfi.
Ekki verður dregið í efa að stjórnvöld hér á landi hafi staðið í góðri trú þegar þau lögðust á árarnar með hinum gömlu og traustu bandamönnum sínum. Sú afstaða var ekki umdeildari en svo hér á landi að hún hafði hverfandi áhrif á niðurstöður alþingiskosninganna. Og miðað við fullyrðingar stjórnvalda hér á landi á þeim tíma, sem settar voru fram í trausti þess að upplýsingar um gjöreyðingavopna Íraka væru réttar, er ekki hægt að áfellast fólk fyrir að standa með stjórnvöldum í þeirri afstöðu.
Auðvitað mælti margt með því í sjálfu sér að steypa Saddam Hussein af stóli. Ógnarstjórn hans hafði kostað milljónir manna lífið með beinum eða óbeinum hætti, ekki síst í röðum Íraka sjálfra. Og vissulega er framtíð Íraka nú bjartari en áður. Þetta hefur einmitt verið helsta röksemd þeirra sem hafa réttætt stríðsreksturinn í Írak eftir að gæta fór vaxandi gagnrýni á hann á Vesturlöndum. Spurt hefur verið hvort hvort það sé neikvætt eða jákvætt að Saddam Hussein sé ekki lengur við völd í Írak. Þeirri spurningu verður ekki svarað öðruvísi en játandi. Og þá er spurt hvort hægt hefði verið að koma Saddam frá völdum öðruvísi en með vopnavaldi. Þegar því er svarað neitandi þykjast menn hafa fundið réttlætingu fyrir stríðsrekstrinum.
Og kannski er það svo. En það er ekki sú ástæða sem menn lögðu af stað með og var grundvöllur stríðsrekstrarins. Og af hverju skiptir það máli? Oft hefur verið á það bent lýðræðisríki fari síður í stríð en ríki sem búa við ólýðræðislega stjórnarhætti. Ástæðan fyrir því er sú að stjórnvöld í lýðræðisríkjum þurfa á stuðningi borgaranna að halda, þeir eiga að ráða. Tregða lýðræðisþjóða til að heyja stríð er bein afleiðing lýðræðis og þegar stuðnings við stríðsáform er aflað á röngum eða fölskum forsendum er vegið að lýðræðinu sjálfu.
Í pistli sem undirritaður skrifaði þegar tvö ár voru liðin frá hryðjuverkunum í Bandaríkjunum, sagði m.a.:
Í fyrsta lagi hefur alþjóðleg samstaða rofnað og það skiptir höfuðmáli. Ef ekki er alþjóðleg samstaða um samstilltar aðgerðir gegn hryðjuverkahópum sem starfa á heimsvísu, þá er sú barátta töpuð fyrirfram. Bandaríkin eða bandamenn þeirra munu aldrei vinna slíkt stríð upp á eigin spýtur. Slíkt stríð vinnst ekki með hernaðarmættinum einum saman. Með því sem virðist hafa verið hentistefnuákvörðun um innrás í Írak hafa Bandaríkjamenn kastað á glæ öflugasta vopninu í baráttunni við hryðjuverkaógnina – alþjóðlegri samstöðu.
Í öðru lagi er hernám Bandaríkjamanna í Írak olía á þann eld haturs sem lengi hefur kraumað í garð Bandaríkjanna í þessum heimshluta. Þótt fullyrða megi að Írakar sjálfir séu miklum mun betur settir nú en undir stjórn Saddams Hussein, þá mun innrásin og herseta bandamanna í gömlu Mesópótamíu verða sem beljandi fljót á myllu hörðustu öfgamanna og þess haturs sem sýkti huga ódæðismannanna þann 11. september 2001.
Þótt heimurinn sé betri með Saddam Hussein á bakvið lás og slá, þá skulum við velta fyrir okkur hverju við höfum fórnað fyrir þann árangur. Margt bendir til þess að mörg af mestu lýðræðisríkjum heims hafa leitt þjóð sína í stríð á röngum – jafnvel fölskum – forsendum. Það er áfall fyrir lýðræðið. Innrásin í Írak hefur ennfremur veikt verulega hið sameiginlega öryggiskerfi sem alþjóðalög kveða á um – slæmt fordæmi hefur verið gefið. Í þriðja lagi er líklegra en ekki að stríðið í Írak hafi dregið máttinn úr baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkum.
Hver og einn verður svo að gera það upp við sig hvort betur hefði verið heima setið en af stað farið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021