Það virðist vera ótrúlega útbreidd skoðun að yfirtökur á fyrirtækjum sem leiða til endurskipulagningar, eignasölu og uppsagna sé af hinu illa. Sýn margra á slíkum hræringum er að þar séu hrægammar á ferð sem eru svo gegnsýrðir af græðgi að þeir „brytja niður fyrirtæki” og eyðileggja líf fólks í gegndarlausri sókn sinni eftir hagnaði og skilja eftir sig auðn og eyðileggingu.
Þetta viðhorf er afskaplega óheppilegt. Fjármálastofnanir og fjármálamarkaðir gegna mikilvægu hlutverki í því að sjá til þess að fjármagn og framleiðslutæki komist í hendur þeirra sem geta skapað mest verðmæti. Yfirtökur og endurskipulagning fyrirtækja er mikilvægur þáttur í þessu ferli.
Hættan á yfirtöku veitir stjórnendum fyrirtækja mikilvægt aðhald. Ef þeir standa sig ekki, þ.e. ef þeir geta ekki skapað næg verðmæti með þeim framleiðslutækjum sem þeir hafa umsjón með, verða þessi framleiðslutæki tekin af þeim og sett í umsjón annarra sem hafa betri not fyrir þau.
Árni Magnússon hefur nýlega sett spurningamerki við það að íslenskir bankar stundi yfirtökur og endurskipulagningu fyrirtækja. Og sérstaklega virtist ráðherrann amast við því að bankarnir hagnist á slíku umstangi. Nú veit ég ekki hvað Árni telur hlutverk bankanna vera. Ef til vill telur hann að bankarnir eigi að vera einhvers konar góðgerðarstofnanir sem ausa fé fólks til þeirra sem „þurfa” á peningum að halda í stað þeirra sem eitthvað kunna með fé að fara. Eða kannski telur hann það hlutverk bankanna að hlúa að gömlum fyrirtækjum jafnvel þegar tími þeirra er liðinn og tilvist þeirra felur í þér sóun á verðmætum.
Það er vonandi að ráðherrann hugsi þessi mál ögn betur og komist að þeirri niðurstöðu að virkir fjármálamarkaðir sem veita fyrirtækjunum í landinu aðhald séu mikilvæg forsenda þess að verðmætasköpun og velsæld á Íslandi verði eins mikil og unnt er. Það eru nógu margir sem hafa ekki betri skilning á gangi hagkerfisins en svo að þeir sjá einungis kostnaðinn sem fylgir „braski með pappír” en ekki ávinninginn sem braskinu fylgir.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009