Á morgun, 19. júní, eru tæp níutíu ár síðan konum var veittur kosningaréttur og kjörgengi. Síðan þá hefur margt áunnist í jafnréttisbaráttunni. Í rúm fjörtíu ár hefur verið kveðið á um það í lögum að körlum og konum skuli greidd sömu laun fyrir sambærilega vinnu. Kannanir sýna hins vegar að raunveruleg staða er allt önnur.
Árið 2001 gerði Verslunarmannafélagið launakönnun meðal félagsmanna sinna. Samkvæmt henni eru karlmenn með 16% hærri heildarlaun en konur þegar tekið hefur verið tillit til fólks í fullu starfi, í sambærilegri starfsstétt, með samsvarandi vinnutíma, starfsaldur og aldur. Í sömu könnun voru þátttakendur beðnir að meta sanngjörn dagvinnulaun fyrir störf sín. Í ljós kom að karlar vildu að meðaltali 284 þúsund krónur í mánaðarlaun en konur 240 þúsund krónur, þrátt fyrir að samkvæmt sömu könnun teldu konur sig almennt betri starfskrafta en karlar. Könnunin leiddi einnig í ljós að minnstur munur er á dagvinnulaunum karla og kvenna sem lokið hafa starfsnámi, og að karlar með háskólapróf eru með 21% hærri laun en konur með háskólapróf.
Samkvæmt könnun Reykjavíkurborgar, sem gerð var sama ár og könnun Verslunarmannafélagsins, er kynbundinn launamunur 7% en árið 1995 var hann helmingi meiri. Þá gegna því sem næst jafnmargar konur og karlar stjórnunarstörfum hjá Reykjavíkurborg. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna. Í niðurstöðum könnunarinnar segir að sá árangur sem náðst hefur megi að miklu leyti rekja til miðlægra aðgerða, einkum kjarasamninga. Hins vegar er verulegur kynbundinn munur á yfirvinnugreiðslum og akstursgreiðslum, sem oft er samið um á vinnustaðnum sjálfum, og hefur sá munur aukist frá árinu 1995. Þar sem konur eru tæplega 75% starfsmanna Reykjavíkurborgar, þarf ekki að koma á óvart að helmingur stjórnenda borgarinnar séu konur. Eftir sem áður gegna hlutfallslega mun fleiri karlar en konur stjórnunarstöðum hjá Reykjavíkurborg. Launakönnunin gefur einnig til kynna að minnstur launamunur sé í störfum sem eru lægst launuð, en launamunurinn eykst eftir því sem launin hækka og ábyrgð í starfi verður meiri.
Launakannanir VR og Reykjavíkurborgar sýna að enn er til staðar launamunur milli karla og kvenna sem ekki er hægt að skýra með öðru en kynferði. Einnig gefa kannanirnar til kynna að meiri menntun kvenna eða aukin ábyrgð í starfi virðist leiða til þess að kynbundinn launamunur eykst. Hins vegar má ráða af þessum könnunum að konur virðast almennt gera minni launakröfur en karlar. Þetta á við hvort sem um er að ræða mat þeirra á sanngjörnum dagvinnulaunum eða þegar kemur að samningum um yfirvinnu og akstursgreiðslur. Það er því full ástæða fyrir konur að velta því fyrir sér hvort þær geri nægar kröfur þegar kemur að launum. Launajafnrétti er mælikvarði á jafnrétti kynjanna. Á meðan konur fá greidd lægri laun en karlar, eingöngu vegna kynferðis, er ekki hægt að segja að jafnrétti ríki í raun á Íslandi.
- Burtu með fordóma - 1. júní 2014
- Rétturinn til þess að ljúga - 23. febrúar 2012
- Markmið sérstaks saksóknara - 31. janúar 2012