Á undanförnum árum hefur fasteignaverð í höfuðborginni hækkað mikið. Lauslega má áætla að verð íbúða hafi hækkað um rúmlega 80% síðan 1997 á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 28%. Því hafa fjárfestingar í fasteignum skilað sér ágætlega.
Skiptar skoðanir virðast vera um hvort þessi hækkun í verði sé varanleg eða eigi eftir að ganga til baka. Bent hefur verið á að kaupendur fasteigna séu launþegar og fasteignaverð takmarkist af kaupgetu þeirra. Samkvæmt því ætti hækkun íbúðarverðs að haldast í hendur kaupmáttaraukningu.
Jafnframt hefur verið bent á að íbúðaverð hefur hækkað mun meira en kaupmáttur og virðist því ekki ráðandi þáttur. Því þarf að leita annarra skýringa.
Skýringin gæti verið sú að stærri hluti útgjalda heimilanna fari í húsnæði og að stöðugur flutningur fólks af landsbyggðinni hafi áhrif á eftirspurn eftir húsnæði og þar með verð. Líklegast er þó skýringuna að finna í auðveldari leiðum fólks til að fjármagna íbúðarkaup ekki síst vegna lána Íbúðarlánasjóðs. Lán á lágum vöxtum og léttari greiðslubyrði hefur gert fólki kleift að kaupa dýrari eignir sem virðist hafa hækkandi áhrif á verðlag.
Því má gera ráð fyrir að stuðningur ríkissins að mestu hafa skilað sér til þeirra sem nú þegar eiga eignir en ekki nýrra kaupenda eins og væntanlega ætlunin var.
Oft er talað um að lítill markaður sé fyrir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem Íslendingar, ólíkt flestum þjóðum í V-Evrópu, vilji eiga sitt húsnæði. Þetta kann þó að vera breytast með svo kölluðum 90% lánum sem Framsóknarflokkurinn, með meira kappi en forsjá, lofaði í síðustu kosningum.
Með 90% lánunum verður enn auðveldara að fjármagna íbúðarkaup og leiða þau væntanlega til hækkunar verðs íbúða. Hversu mikið fer þó eftir hversu há lán fólki býðst. Væntanlega munu flestir kjósa borga lánin til baka á 40 árum. Lánin eru verðtryggð og með lægri greiðslubyrði en t.d. 25 ára lán en sá böggull fylgir skammrifi að mjög hæg eignamyndun verður við greiðslu þeirra.
Reyndar hefur þessi þróun hafist nú þegar þar sem nú á dögum virðast langflestir velja hægari eignamyndum fyrir lægri greiðslubyrði en á síðasta ári voru um 16% húsbréfalána til 25 ára og restin til 40 ára. Talið er að fyrstu 25 ár 40 ára lánanna fara í að greiða niður vexti af höfuðstól og ef fasteignaverð fer ekki mikið fram úr almennu verðlagi, auka lántakendur ekki við eign sína fyrr en þeim tíma liðnum.
Því má segja að þangað til verði þeir að sætta sig við að “leigja”.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021