Umræðan um hjónabönd samkynhneigðra hefur blossað upp hér á landi í kjölfar harkalegra og pólitískra deilna um málið í Bandaríkjunum að undanförnu. Í Bandaríkjunum gæti þetta jafnvel orðið eitt að kosningamálunum í komandi þingkosningum. Hér á landi hafa þessi mál hins vegar lítið orðið að pólitísku baráttumáli enda hafa þingmenn almennt verið sammála þegar kemur að því að lögleiða ákvæði er snúa að réttarstöðu samkynhneigðra.
Síðan að lög um staðfesta samvist tóku gildi hér á landi árið 1996 hefur umræðan um hjónabönd og staðfesta samvist samkynhneigðra fyrst og fremst beinst að kirkjunni. Kirkjan hefur verið sökuð um að draga lappirnar í málum samkynhneigðra þar sem hún hefur ekki opinberlega samþykkt hjúskap samkynhneigðra, þó sumir prestar hafi blessað sambönd þeirra. Málið er umdeilt innan kirkjunnar og virðist skiptingin vera fyrst og fremst milli eldri og íhaldsamari presta annars vegar og yngri og víðsýnni presta hins vegar. Á meðan hér er við lýði stjórnarskrárvernduð þjóðkirkja vaknar hins vegar sú spurning hvort það sé raunverulega á valdi hennar að jafna stöðu eða koma í veg fyrir jafna stöðu samkynhneigðra í þessu sambandi.
Það er nefnilega ekki bara við þjóðkirkjuna að sakast, því þó kirkjan fegin vildi þá má ekki lögum samkvæmt gefa saman tvo einstaklinga af sama kyni í hjónaband. Í 1. gr. hjúskaparlaga segir mjög skýrt: Lög þessi gilda um hjúskap karls og konu. Þá segir enn fremur í lögum um staðfesta samvist að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæmi staðfestingu á samvist. Þannig kveða lög skýrt á um það að samkynhneigðir séu ekki gefnir saman í hjónaband, hvort sem er af kirkjunni eða öðrum trúfélögum.
Þó lög um staðfesta samvist hafi verið stórt skref fyrir 8 árum virðist það óskiljanlegt í dag að ríkið skuli mismuna sambúðarformi manna með þeim hætti sem lög kveða á um og í raun var það óskiljanlegt á þeim tíma líka. Af hverju gilda hjúskaparlög ekki jafnt um hjónabönd samkynhneigðra og gagnkynhneigðra? Af hverju er í sérlögum um staðfesta samvist tekin upp nánast öll ákvæði hjúskaparlega nema þau sem lúta að því hverjir megi gefa fólk saman og hvað sé hjúskapur? Það verður víst aldrei of oft kveðin sú vísa að samkvæmt stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum, án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að breyta lögum á þann veg að hjúskapur samkynhneigðra sé sams konar og jafnrétthár og hjúskapur gagnkynhneigðra. Það er svo mál hvers trúfélags fyrir sig að ákveða hvort gefa skuli saman samkynhneigð pör í nafni trúarinnar. Á meðan hér er til staðar þjóðkirkja og ríkistrú er hins vegar vandséð hvernig þjóðkirkjan gæti neitað að framfylgja lögum ef þau kvæðu á um hjúskap samkynhneigðra líkt og gagnkynhneigðra. Það fylgja nefnilega ekki bara réttindi því að vera þjóðkirkja heldur ákveðnar skyldur líka.
Þó gagnrýna megi presta og þjóðkirkjuna fyrir að taka ekki skýrt á þessum málum vegur þó gagnrýnin á Alþingi enn þyngra!
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020