Svæðið við Kárahnjúka
|
Fyrir skömmu varð hörmulegt slys við Kárahnjúka þar sem ungur maður beið bana. Í stórframkvæmdum, sérstaklega við þær erfiðu aðstæður sem ríkja á hálendi Íslands verður alltaf erfitt að koma í veg fyrir óhöpp, og jafnvel stórslys líkt og varð í þessu tilfelli. Fyrir liggur að málið verður rannsakað ítarlega og kannað hvort farið hafi verið að settum reglum.
Kárahnjúkavirkjunin er ekki fyrsta stórframkvæmd Íslandssögunnar sem hefur kostað mannslíf, banaslys hafa áður orðið, bæði við vega- og virkjunarframkvæmdir. Sjósókn Íslendinga hefur enn fremur kostað margan góðan manninn lífið. Þegar litið er til annarra svipaðra framkvæmda verður ekki séð annað en að allar líkur hafi verið á slysi á borð við þetta.
Enda var það svo að í áætlunum sem gerðar voru fyrir framkvæmdina, meðal annars vegna tryggingamála, að gert var ráð fyrir slíkum hörmungum. Það var ekki bara gert ráð fyrir banaslysi, heldur nokkrum slíkum. Þegar haft er í huga hversu mikið verk er enn eftir við Kárahnjúka verður ekki annað séð en að líkur séu á fleiri slysum áður en framkvæmdin er úti.
Ætti þá að hætta við virkjunina? Nei, það verður víst ekki raunin, frekar en að við hættum að sækja sjóinn eða leggja vegi og brýr. Það fylgja því hættur að beisla náttúruöflin og eins kaldranalegt og það kann að virðast þá gera menn ráð fyrir slíkum hættum, reyna að lágmarka þær, en halda svo áfram ef hættan er nógu lítil í hlutfalli
við ávinninginn. Menn meta mannslíf til fjár.
En þótt vissulega sé harkalegt að halda þessu fram er ekki betra að horfa fram hjá því. Í umræðum um virkjunina á síðasta ári komust tölurnar um áætlaðan fjölda banaslysa í fjölmiðla. Talsmaður framkvæmdaraðilans gerði þá lítið úr alvöru málsins og lagði það upp eins og þessi úttekt væri einvörðungu formsatriði, það myndi enginn farast við virkjunina. Í ljósi undanfarinna tíðinda virðast þau ummæli vera óheppileg og illa grunduð.
Fólk tekur áhættu á hverjum degi, en engu að síður er mörgum illa við að hugleiða hana eða viðurkenna að hún sé til staðar. Það er óskandi að hún verði lágmörkuð á virkjunarsvæðinu það sem eftir lifir framkvæmdina og að slys verði sem allra fæst.
Fyrir flesta Íslendinga eru þetta slæmar fréttir frá Kárahnjúkum sem er vonandi að endurtaki sig ekki. Fyrir þá sem eiga um sárt að binda er þetta hörmulegur atburður sem skilur fjölskyldu og ástvini eftir í sárum. Þau eiga samúð mína.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020