Skelfileg hryðjuverk í Madríd í síðustu viku virðast hafa haft úrslitaáhrif á spænsku þingkosningarnar. Lýðflokknum, flokki Aznars fráfarandi forsætisráðherra, var fyrir kosningarnar spáð sigri en nú er ljóst að sósíalistar hafa unnið stórsigur undir forystu Jose Luis Rodriguez Zapatero. Það skal ósagt látið hvort Aznar og fráfarandi ríkisstjórn hafi notfært sér hryðjuverkin í pólitískum tilgangi en hitt er ljóst að búið er að senda hryðjuverkamönnum heimsins skilaboð: Hryðjuverk geta skilað „árangri“. Ef svo hræðilega má að orði komast.
Fyrsta verk Zapatero, verðandi forsætisráðherra Spánar, var að tilkynna brottflutning spænskra hermanna frá Írak og setur það spurningamerki við staðfestu hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu og baráttunni gegn hryðjuverkum. Það er að mati pistlahöfundar afar gagnrýnisvert hjá verðandi þjóðarleiðtoga að staðfesta mátt hryðjuverka með þessum hætti. Þó svo að Zapatero hafi stefnt að því að kalla spænska hermenn heim frá Írak að loknum kosningum virðist alger óþarfi að gera það með þessum hætti strax að kosningum liðnum. Í raun má segja að hann sé lýsa því yfir að Al Kaída hafi knúið spænsku þjóðina til uppgjafar í baráttu hinna staðföstu þjóða.
Sósíalistaflokkurinn var reyndar með það á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að kalla hermenn heim frá Írak og því nokkuð ljóst hvað myndi gerast ef flokkurinn sigraði. En með útspili sínu virðist Zapatero hafa fallið í sömu gildru valdagræðgi og Aznar, að notfæra sér hryðjuverkin til pólitískra vinsælda. Það finnst pistlahöfundi smána fórnarlömb árásanna og senda afleit skilaboð frá hinum vestræna heimi.
Það skal taka fram að þessi skoðun pistlahöfundar hefur ekkert að gera með afstöðu hans til Íraksstríðsins eða baráttu hinna staðföstu þjóða gegnhryðjuverkum. Hvort sem menn eru með, eða á móti þeim aðferðum sem er beitt, er ljóst að hryðjuverkamönnum hefur verið gefinn tónninn og Zapatero hefur sett Evrópubúa í mun meiri hættu en áður var, Íslendinga þar með talda.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009