Tveir af þremur dómurum Hæstaréttar sýknuðu í dag Sigurð G. Guðjónsson í máli sem Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, höfðaði á hendur Sigurði vegna þess sem hann taldi ærumeiðandi aðdróttanir í sinn garð í blaðagrein. Lesendum DEIGLUNNAR ætti að vera ljóst um hvaða mál er að ræða og er því ekki ástæða til að rekja atvik þess hér.
Er niðurstaða meirihlutans, Haralds Henryssonar og Hrafns Bragasonar, í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 1974 í máli sem snérist um ummæli í Þjóðviljanum um menn sem stóðu að undirskriftasöfnunni Varið land. Þá lagði rétturinn efnislega þá línu að menn sem þátt tækju opinberlega þátt í þjóðmálaumræðu yrðu að þola harðari gagnrýni en aðrir. Í því ljósi er vert að velta því fyrir sér, hvort sú persóna sem nú gegnir embætti forseta Íslands, þurfi að sæta skerðingu á réttarvernd sem embættið hefur að öllu jöfnu, vegna sóðalegs bakgrunns hennar á íslenskum þjóðmálavettvangi. Það sem hins vegar er ólíkt í þessu máli er að Kjartan Gunnarsson hefur síður en svo verið þátttakandi í þjóðmálaumræðunni, þótt vissulega gegni hann þýðingarmiklum trúnaðarstörfum.
Þá er talið sýkna að beri Sigurð, þar sem honum sé nær ómögulegt að sanna hvort fótur hafi verið fyrir þeim ummælum sínum um Kjartan, að hann hefði beitt áhrif sínum innan LÍ til að Íslenska útvarpsfélagið fengi þar enga fyrirgreiðslu. Eins og Garðar Gíslason bendir réttilega á í séráliti sínu, margítrekaði Sigurður í blaðaviðtölum í kjölfar greinar sinnar, að ásakanirnar væru sannar og hann gæti sannað þær. Garðar bendir jafnframt á að Sigurður hafi enga tilraun gert til að sanna ummæli sín, þótt honum hefði verið það í lófa lagið. Að mati Garðars felst í ummælum Sigurðar meiðandi aðdróttun, nema hún sé sönnuð. Það var ekki gert og því er það niðurstaða Garðars að ummælin verði ómerkt og Sigurður greiði Kjartani kostnað við birtingu dómsins.
Taka verður undir þau sjónarmið sem fram koma í sératkvæðinu. Því miður eru ýmsir sem ekki hafa eiginleika til að fara með þeim frelsi sem þeim er lagt í hendur í lýðræðislegu þjóðfélagi. Er þar átt við málfrelsið. Það er sorglegt niðurstaða ef menn komist upp með alvarlega ásakanir, án þess að þurfa að sýna fram á sannleiksgildi þeirra fyrir dómi, einungis vegna þess að andlag ásakananna gegnir þessu eða hinu starfinu.
272/2000 Kjartan Gunnarsson (Jakob R. Möller hrl.) gegn Sigurði G. Guðjónssyni (Gestur Jónsson hrl.)
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021