Á næstu tveimur sólarhringum er útlit fyrir að landsmenn eyði ótöldum milljörðum króna í gleði sinni yfir því, að enn eitt árið ganga jólin í garð. Á fólki hvílir ýmis konar siðferðisleg skylda um þessar myndir. Ein er sú að kaupa jólagjafir handa vinum og ættingjum, önnur að senda þeim sem ekki eru eins nánir jólakort og enn önnur að gerilsneyða húskofann ef vera kynni að jólaandinn skyldi koma í gervi heilbrigðiseftirlitsins og gera úttekt á aðbúnaði heimilismanna um þessi jól. Jólin eru að þessu leyti eins yfirþyrmandi og hugsast getur.
Það skyldi þó ekki vera, að sú friðartilfinning og ró sem færist yfir þegar jólahátiðin gengur loks garð, sé tilkominn vegna þess að fólk er úrvinda á líkama og sál eftir amstur daganna á undan? Vissulega eru jólin skemmtileg og hátíðleg í sjálfum sér. Á þessu landi fremur en öðrum jafnvel eru þau hátið ljóssins, mitt í myrkasta skammdeginu. En af hverju er ekki hægt að láta þar við sitja? Af hverju þarf að eyðileggja þessa hátíð með ranghugmyndum um siðferðislega skyldu manns til að kaupa jólagjafir handa þessum og hinum, senda þeim sem ekki fá gjöf jólakort og hreingera af meiri natni og ákafa en nokkurri húsmóður dytti í hug að sýna við tilbeiðslu frelsarans?
DEIGLAN óskar lesendum sínum, nær og fjær, gleðilegra jóla. Næsta tölublað kemur út 25. desember, á jóladag, og þá verður vonandi betra í henni hljóðið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021