Öryrkjabandalag Íslands, öðru nafni Garðar Sverrisson, hyggst nú leita liðsinnis hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í baráttu sinni gegn stjórnvöldum. Garðar er ósáttur við lög sem kjörnir fulltrúar landsins hafa sett og hyggjast setja og vill að forsetinn hlutist til um að þau verði ekki sett. Garðar er svolítið seinn á ferðinni að Bessastöðum, því það var einmitt forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson sem staðfesti hin umdeildu lög um tekjutengingu örorkubóta sem dæmd voru andstæð stjórnarskrá í nýlegum hæstaréttardómi. Þá er einnig merkilegt að leitað skuli til Ólafs Ragnars Grímssonar um tilsögn í lagasetningarmálum, en bráðabirgðalög sem hann setti upp á sitt einsdæmi til að afnema löglegan kjarasamning háskólamanna um árið voru ógilt í hæstarétti og hlaut hann litla sæmd af því, eins og svo mörgu öðru fyrir siðaskiptin árið 1996.
En þetta mál er athyglisvert að öðru leyti. Sú tilhneiging færist í vöxt um þessar mundir, að forssvarsmenn félagasamtaka og hagsmunahópa, sem oft eru lítið annað en forsvarsmennirnir sjálfir, geta ekki sætt sig við hvernig lög er sett í lýðræðisþjóðfélagi. Fulltrúalýðræðið virkar nefnilega þannig að kjósendur velja fulltrúa sína á þing til að setja fyrir sig lög. Meirihluti þingmanna sameinast svo um hin ýmsu mál og hefur þá til þess umboð meirihluta þjóðarinnar. Dómstólar hafa síðan vald til að úrskurða um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. En af nýlegum Hæstaréttardómi, sem virðist tilkominn af vetrarleyfi þriggja dómara til Flórída, má ráða, að dómstólar hyggjast í auknum mæli ætla að taka sér vald til að setja lög.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig hr. Ólafur Ragnar Grímsson tekur málaleitan Garðars Sverrissonar. Sem kunnugt er kusu tveir af hverjum fimm sem mættu á kjörstað í síðustu forsetakosningum Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta. Þrír af hverjum fimm vildu ekki sjá hann í embætti. Spurningin er sú, hvort hann telji sig hafa umboð þjóðarinnar til að gera eitthvað annað en að vera fararstjóri til suðrænna landa í boði helstu styrktaraðila sinna.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021