Hann er með ólíkindum sá áhugi sem fréttastofa Ríkisútvarpsins sýnir vinnudeilum. Ekkert sem við kemur slíkum deilum er of smávægilegt til að komast ekki að í fréttatíma og ekki þarf „fréttin“ að vera ýkja stór eða efnismikil til að komast í fremstu röð. Mestan áhuga fréttastofunnar vekja vitaskuld vinnudeilur þar sem opinberir starfsmenn eiga í hlut. Þess vegna þurfti fyrsta „frétt“ Ríkisútvarpsins í gærkvöldi ekki að koma svo mikið á óvart.
Þar var fullyrt að verkfall framhaldsskólakennara hefði leitt til aukinnar fíkniefnaneyslu hjá nemendum framhaldsskólanna sem hefðu lítið fyrir stafni þessa dagana. Þessu til stuðnings var rætt við sálfræðing [sem jafnframt var faðir, merkilegt nokk!] á meðferðarstöð SÁÁ. Hann ræddi í nokkrar mínútur um skoðun sína á starfsháttum samninganefnda ríkisins og kennara og sagði hreint út að þær væru ekki starfi sínu vaxnar, þar sem ekki hefði enn samist. Þegar talið beindist að „fréttinni“ sjálfri hafði sálfræðingurinn ósköp lítið til málanna leggja annað en að foreldrar hefðu áhyggjur af því að aðgerðaleysi barna sinna gæti leitt þau á ranga braut.
Það er í sjálfu sér ekkert að því að segja frá því að foreldrar hafi áhyggjur og það er líka allt í lagi að færa landsmönnum þær fréttir að verkfall kennara standi nú sem hæst, mitt í því sem ella væri jólafrí bæði þeirra og nemenda. En kemur ekki Ríkisútvarpið illilega upp um sig og sitt hlutdræga fréttamat með því velja slíkri frétt stað fremst í fréttatímanum?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021