Albert A. Gore Jr. tók fyrir skömmu við tilnefningu Demókrataflokksins í Bandaríkjunum til þess að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna. Í ræðu sinni á flokksþinginu lýsti hann fögrum áformum sínum um ýmis konar umbætur sem hann hyggst gera í Bandaríkjunum nái hann kjöri. Gjafmildi Gore virðast fá takmörk sett. Gore mun endurbyggja ónýt skólahús, hann mun sjá til þess að hvert einasta barn njóti þjónustu frábærra leikskóla og grunnskóla auk þess sem hann mun gefa foreldrum skattaafslátt ef þeir nota hann til þess að koma börnunum sínum í háskóla. Hann mun gefa sjúkum lyf og sjá til þess að fatlaðir hljóti atvinnu við sitt hæfi. Hann mun þar að auki tryggja öryggi þegna landsins með því að ráða til starfa tugi þúsunda lögregluþjóna sem í þokkabót verða mun betur innrættir en margir af þeim ribböldum sem nú sinna löggæslu. Slíkur rausnaskapur getur varla gefið annað í skyn en að í Gore fari maður með slíkt öðlingshjartalag að endemum sæti.
Hin hliðin á gjafmildi forsetaefnisins er auðvitað sú að þrátt fyrir sterk efni er Gore sjálfur og fjölskylda hans vart fær um að borga nema lítinn hluta þessara umbóta úr eigin vasa. Framkvæmdirnar verða auðvitað greiddar með skattfé almennings. Gore segir nefnilega, eins og svo margir velviljaðir samfélagskipuleggjendur, að skattalækkanir komi ekki til greina þar sem almenningur hafi ekki hundsvit á því hvernig peningunum sé best varið. Fólk gæti asnast til þess að kaupa sér betri og öruggari bíla, nýjar íbúðir eða eldra viskí. En fáviska fólks ríður ekki við einteyming því hugsast getur að einhverjum gæti dottið í hug að senda börn sín í einkaskóla.
Þess vegna hafnar Gore öllum hugmyndum um frjálst val foreldra og svokallað ávísanakerfi. Og það sem er ennþá verra er að fólk gæti látið glepjast til að fjárfesta í pappírspeningum. En Gore sér við því líka og hafnar hugmyndum um að fólk fái að verja stærri hlut sparnaðar síns í hlutabréfakaup á kostnað almannatryggingakerfisins (social security). Röksemdin er sú að fallvaltleiki markaðarins riði sparifjáreigendum að fullu. Þessi hugmynd stenst þó enga nánari skoðun því ávöxtun á hlutabréfamarkaði tekur ávöxtun í opinberum sjóðum undantekningarlaust fram þegar til lengri tíma er litið. Þetta veit Gore og samstarfsfólk hans, enda hefur komið í ljós að allflestir ráðgjafa hans greiða sem minnst þeir mega í almannatryggingakerfið og telja hag sínum betur borgið með að leggja féð í hlutabréfasjóði.
Það sem Gore, og aðrir stjórnlyndir pólitíkusar, eru að fara fram á þegar þeir óska eftir stuðningi til mikilla framkvæmda og mikilla umbóta í krafti óhefts aðgangs að skattfé fólks er ekkert annað en hópafsal dómgreindar og fjöldaafneitun á sjálfráðarétti. Þeir sem láta blekkjast og veita slíkum framkvæmdamönnum brautargengi í kosningum gera það í þeirri trú að hag sínum sé þannig betur borgið. Með öðrum orðum segja þeir: Ég veit ekki hvað er sjálfum mér fyrir bestu. Þeir, sem horfast í augu við það að treysta sér ekki til að dæma sjálfir um hvað sé þeim fyrir bestu, ættu e.t.v. að staldra við og íhuga hvert slíkur hugsunarháttur hefur leitt mannkynið – og í framhaldi af því velta því fyrir sér hvers konar vanvirðing það er við almenning að bjóða upp málflutning af þessu tagi.
Einfeldningurinn Birtingur komst að því að forsenda hamingjunnar væri að maður ræktaði garðinn sinn – ekki að einhver annar gerði það fyrir opinbert fé og kannski allra síst Albert Gore Jr.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021