Þeim sem búa á meginlandi Evrópu stendur stöðug ógn af Frökkum. Hvenær sem er geta þeir átt von á að daglegt líf þeirra umturnist vegna Frakka. Ástæðan er mótmæla- og verkfallagleði þeirra. Manni virðist sem svo að franskir verkamann lifi hreinlega fyrir skipulagðar aðgerðir gegn ríkisstjórninni, McDonald´s eða bara hverju sem þeim dettur í hug. Nú síðast voru það franskir trillusjómenn sem létu finna fyrir sér. Aðgerðir þeirra fólust í því að loka siglingaleiðum við báðar strendur Frakklands. Þetta hafði veruleg óþægindi í för með sér fyrir þær þúsundir sem treysta á samgöngur á sjó – hvort sem er farþega- eða vöruflutninga.
Skömmu eftir að aðgerðirnar hófust bárust fregnir af því að franskir bændur og vörubílstjórar hyggðu á samúðaraðgerðir. Það er nefnilega gráupplagt að loka öllum landleiðum líka sem fyrst og sennilega kæmi það fáum á óvart ef flugvallarstarfsmenn tækju upp hanskann fyrir trillusjómennina fljótlega, þótt ekki væri nema til þess að sýna fram á að þeir séu engar liðleskjur þegar bráðnauðsynlegar mótmælaaðgerðir eru annars vegar.
Franskir verkamenn láta nefnilega ekki bjóða sér hvað sem er. Leiðtogi trillusjómannanna, Jose Huleux, sagði í viðtali við breska blaðið Daily Mail að hann hefði engan skilning á kvabbinu í breskum ferðalöngum sem þurftu að bíða í fleiri klukkutíma og sólarhringa eftir að komast heim til sín að afloknu sumarfríi. Reyndar sagði Huleux, eða Monsieur Misery – eins og breska pressann kallar hann, að Bretar væru sjálfselskir ræflar sem færu ekki nógu oft í verkföll sjálfir. Þeir eru að sögn Huleux of miklar gungur til þess að standa í skipulögðum verkfallsaðgerðum. En hverju var verið að mótmæla? Jú – hækkandi verði á díselolíu. Eins og allir vita hefur heimsmarkaðsverð á olíu margaldast í verði á síðustu átján mánuðum og víða hefur sú hækkun haft enn meiri áhrif en ella vegna hárra skatta sem ríkið leggur á olíu.
Það á hins vegar ekki við um franska trillusjómenn, sem fyrir einhverjum árum síðan fengu niðurfelld opinber gjöld af olíu. Meira hefði maður ekki haldið að hægt væri að krefjast af frönskum stjórnvöldum. Mótmælin hljóta því að hafa beinst gegn markaðlögmálinu um framboð og eftispurn eftir olíu. Slíkt er náttúrlega með endemum. Hvað næst? Kannski að næstu mótmæli snúist gegn þyngdarhröðun jarðar – en franska ríkisstjórnin hefur álíka mikið um hana að segja og heimsmarkaðsverð á olíu. Því var aðeins ein lausn möguleg. Beinar niðurgreiðslur til olíukaupa trillusjómanna. Og það varð úr. Franska ríkisstjórnin ákvað að láta undan hryðjuverkastarfsemi trillusjómannanna og lofa að greiða niður verðið, þrátt fyrir að það gangi að öllum líkindum í berhögg við reglur Evrópusambandsins um niðurgreiðslur til sjávarútvegsins.
Franska ríkisstjórnin er milli steins og sleggju því henni ber einnig að tryggja frjálsa og óhindraða fólksflutninga við landamæri sín og innan þeirra. Því átti franska ríkisstjórnin tvo kosti: Annars vegar að láta undan kröfum sjómannanna og hins vegar að stöðva aðgerðir þeirra með valdi. Hvorugur kosturinn er fýsilegur – svo fyrri leiðin var farin, nú sem oftar. Franska ríkisstjórnin mætti þó e.t.v. líta til þeirra óskráðu reglna sem ríkja um alþjóðlega hryðjuverkamenn, þ.e. að láta aldrei undan kröfum þeirra. Ástæðan fyrir þeirri reglu er sú að með því að gefa fordæmi um að hægt sé að ná fram kröfum sínum með hryðjuverkum skapast aukinn hvatning til þess að stunda þau. Frakkar eiga við sama vandamál að etja því á síðustu fimm árum hafa aðgerðir við hafnir Frakklands tuttugu sinnum valdið óskunda – og alltaf hefur franska ríkisstjórnin látið undan kröfum lögbrjótanna. Fjölmargir aðrir hópar í Frakklandi hafa náð kröfum sínum fram með ofbeldisaðgerðum. Verkföll flugvallarstarfsmanna eru sívinsæl og fyrir nokkrum árum komust starfsmenn banka nokkurs í fréttirnar þegar þeir héldu stjórn bankans í gíslingu þar til hætt var við fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir. Það voru skemmtilegir tímar í annars tilbreytingarlitlu lífi bankastarfsmannanna.
En svo við víkjum nú aftur að trillusjómönnunum. Þeir fengu semsagt frönsku ríkisstjórnina til þess að samþykkja auknar niðurgreiðslur á olíunni. Það þýðir vissulega tekjutap fyrir ríkisstjórnina og, ef ég má, þá vil ég koma með hugmynd til þess að bæta það upp. Hvernig væri að bæta tapið með því að draga úr niðurgreiðslum til bænda. Það hefði þó væntanlega enn eina aukaverkunina í för með sér. Bændurnir tækju án efa til við skipulagðar mótmælaaðgerðir, t.d. með því að loka vegum. Þá væri náttúrlega við hæfi að trillusjómennirnir launuðu greiðann og hæfu samúðaraðgerðir – og nærtækasta lausnin væri vissulega að loka siglingaleiðum við strendur Frakklands. Og til þess að stöðva aðgerðir bændanna þyrfti ríkisstjórnin auðvitað að gauka einhverju til þeirra – og til þess að fjármagna það væri rakið að draga úr þessum heimskulegu olíuniðurgreiðslum til trillusjómanna.
Svona gengur þetta – hring eftir hring – þar til Frakkar átta sig á því að millifærslur og niðurgreiðslur stjórnvalda mynda vítahring óhagkvæmni sem ekki verður rofinn fyrr en fólk ákveður að leita annarra lausna. Þá þyrfti fólk eins og Bretinn David Langford ekki að þurfa að upplifa rúmlega sólarhrings stopp við frönsku ströndina eftir að hafa ferðast klakklaust alla leið frá Tælandi – hann sagði: „Ég er búinn að ferðast þúsundir kílómetra og hef farið í gegnum ellefu lönd. En það er alltaf sama sagan. Vandræðin hefjast alltaf í Frakklandi þegar ég er 23 km frá Englandi.“
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021