Samband ungra sjálfstæðismanna hefur að undanförnu verið gagnrýnt nokkuð fyrir samþykktir sínar á málefnaþingi á Akureyri. Í pistli á vefriti Ungra jafnaðarmanna þann 1. nóvember sl. gagnrýnir nýkjörin formaður félagsins Katrín Júlíusdóttir nokkra þætti í samþykkt SUS. Meðal þess sem Katrín telur sérstaklega ámælisvert er að í samþykkt SUS var að finna eftirfarandi setningu: „Ríkið er illa til þess fallið að standa í atvinnurekstri og á það jafnt við um rekstur sjúkrastofnanna sem og annan rekstur.“ Í greinargerð með þessari ályktun segir m.a. að ein ástæða fyrir óhagkvæmni í rekstri heilbrigðisstofnanna sé að ríkið sé: „bæði kaupandi og seljandi að heilbrigðisþjónustu í landinu.“
Það er áhugavert að hið Ungir jafnaðarmenn sjái ekki rökin á bak við það sem verið er að segja í þessari ályktun SUS. Margir meðlimir félagsins segja að UJ sé hlynnt markaðshagkerfi en ekki markaðssamfélagi. Í ljósi þess ætti formaður UJ að geta tekið undir það með SUS að í markaðshagkerfi sé það kjánalegt að selja sjálfum sér þjónustu. Slíkar aðferðir ganga kannski ágætlega upp hjá glæpaklíkum sem stunda peningaþvætti – en eru ekki taldar hagkvæmar í öðrum rekstri. Taka verður skýrt fram að í tillögum SUS er ekki lagt til að skattgreiðendur hætti að greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna, einungis að rekstur stofnananna verði færður í annað form. Þannig skapast tækifæri til nýsköpunar, frumkvæðis og sparnaðar – m.ö.o öll þau ágætu áhrif sem aðeins virk samkeppni getur haft á atvinnugrein.
Þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita að mikil gagnrýni hefur verið á áform ríkisstjórnarinnar um að gefa einkaaðilum í auknum mæli færi á að selja heilbrigðisþjónustu. Af helstu stjórnmálaflokkum hefur Sjálfstæðisflokkurinn einn vakið máls á því að ríkinu beri að taka minni þátt í rekstri heilbrigðisstofnanna. Í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins frá 1999 segir m.a.: „Aðskilja þarf betur hlutverk ríkisins sem kaupanda og rekstraraðila í heilbrigðisþjónustunni í þeim tilgangi að efla kostnaðarvitund og aðhald.“ Framsóknarmenn sögðu í kosningayfirlýsingu sinni fyrir síðustu kosningar að „óheft einkavæðing“ kæmi ekki til greina og aldrei mætti einkavæða grunnþætti hennar.
Samfylkingin lét frá sér plagg fyrir síðustu kosningar. Það er reyndar sennilegast fyrsta íslenska kosningaplaggið sem bar erlendan titil. Það heitir: Stefnuyfirlýsing Samfylkingarinnar – Manifesto (breski Verkamannaflokkurinn gaf einmitt frá sér Manifesto en lét vera að sletta á íslensku). Í Manifestóinu segir: „Samfylkingin berst gegn einkavæðingu grunnþátta velferðar-og menntakerfisins.“ Yfirlýsingar Framsóknar og Samfylkingarinnar eru loðnar, eins og við er að búast, en Vinstri grænir fara ekki í grafgötur með sínar skoðanir frekar en áður. Í þeirra stefnu segir: „Íslenska velferðarkerfið er í hættu. Því er ógnað með niðurskurði og einkavæðingu.“ Ljóst er að einungis hjá Vinstri grænum er tekin afdráttarlaus afstaða í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn stígur ekki skrefið til fulls og Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn tala um grunnþætti heilbrigðiskerfisins án þess að skilgreina nánar hvað við er átt.
Nú standa yfir forsetakosningar í Bandaríkjunum. Það minnir á sögu sem Egill Helgason sagði í ræðu sem hægt er að nálgast á vefnum hans. Sagan er af bandarískum kvikmyndagerðarmanni sem hlustaði á þingmann Sjálfstæðisflokkinn ræða um skoðanir sínar á stjórnmálum. Niðurstaða Bandaríkjamannsins var: „Well, I don’t know, but in my country they would consider you a socialist.“ Þetta segir kannski meira en mörg orð um ólíka staðsetningu miðjunnar á Íslandi og í Bandaríkjunum. Sennilega þætti Sjálfstæðisflokkurinn gjörsamlega utan þjónustusvæðis í Bandaríkjunum sakir sósíalisma. Hvað þá með Vinstri græna? Aðdáendur VG í Málfundafélagi ungra róttæklinga (útgefendur Múrsins) hafa fyrir löngu fundið sinn mann í bandarísku forsetakosningunum. Það er Ralph Nader – eini alvöru vinstri maðurinn þar á bæ. Og hvað skyldi nú Ralph Nader og hans flokkur segja um bandaríska heilbrigðiskerfið? Það er þetta: Græningjaflokkur telur heilsugæslu til mannréttinda, og styður því opinbert almannatryggingakerfi í Bandaríkjunum. Kerfi þetta yrði fjármagnað af hinu opinbera, stjórn þess yrði í höndum heimafólks, og þjónustan yrði veitt af einkaaðilum, þ.e., læknaþjónustur, sjúkrahús, og aðrar heilsustofnanir yrðu áfram einkareknar og samkeppnisdrifnar, og sjúklingum yrði gefinn ákvörðunarréttur í vali á þjónustuaðilum.
Þar hafið þið það: Mesti komminn í forsetakosningunum í Bandaríkjunum er í meginatriðum sammála frjálshyggjubrjálæðingunum í SUS í heilbrigðismálum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021