Vegna fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa (og íbúa á Austurlandi!) um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar hefur mönnum orðið tíðrætt um það sem sumir kalla „beint“ eða „virkt“ lýðræði, til aðgreiningar frá fulltrúalýðræðinu sem algengast er meðal lýðræðisþjóða. Í Aþenu til forna fólst beint lýðræði í því, að frjálsir menn komu saman á torginu og greiddu atkvæði um málefni samfélagsins. Mikilvægt er að hafa hugfast að frjálsir menn Aþenuborgar voru forréttindahópur sem hélt þræla til að hafa næði til að hugsa. Samfélag þeirra var tiltölulega einfalt, að minnsta kosti í samanburði við nútímann, og þeim gafst tækifæri til að setja sig inn í flest mál.
Með tíð og tíma varð fulltrúalýðræðið ofan á og fyrir þvi eru margvísleg rök. Í fyrsta lagi er ógjörningur fyrir vinnandi fólk að setja sig inn í öll samfélagsmál og því velur það sér fulltrúa til að sjá um það. Í öðru lagi mæla hagræðissjónarmið með fulltrúalýðræðinu, þar sem lagasetning á að vera markvissari og skjótvirkari. En eftir tilkomu og almenna útbreiðslu Netsins hafa margir talið að fulltrúalýðræðið hefði gengið sér til húðar og hafa þeir, sem ekki áttu sjö dagana sæla í lýðræðisumhverfi 20. aldarinnar, gjarnan sagt að 21. öld yrði öld nýs lýðræðis, hins „beina“ eða „virka“.
En skoðum aðeins þetta nýja lýðræði. Gerum ráð fyrir að hægt yrði útbúa kerfi sem tryggði örugga kosningu og hverjum og einum borgara á kosningaaldri gæfist kostur á að greiða atkvæði um lagasetningu. Hverjir eru líklegastir til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni hverju sinni? Þeir sem hafa hagsmuna að gæta. Hverjir eru það? Þrýstirhópar og aðrar sem hagnast gætu á viðkomandi lagasetningu. Öruggt má telja að hinn venjulegi skattgreiðandi myndi hvorki hefu getu né vilja til að setja sig inn í öll mál og þess vegna yrði hlutur hans á endanum fyrir borð borinn (það er náttúrlega þannig á Alþingi líka, kynnu einhverjir að segja – mikið til í því). „Beina“ og „virka“ lýðræðið yrði þannig virk leið fyrir þrýstihópa til að komast beint í vasa skattgreiðenda. Þetta rómaða nýja lýðræði er það næsta sem við höfum lengi komist skrílræðinu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021