Skoðanakönnun DV í gær vakti nokkra athygli. Fréttir af andláti Framsóknar virðast hafa verið ótímabærar og virðist gamli græni loks vera að rétta eilítið úr kútnum. Samfylkingin hrapar hins vegar niður í fylgi á meðan VG bætir verulega við sig. Sjálfstæðisflokkur er enn í lægð sem þó er innan eðlilegra skekkjumarka. Stóra fréttin í þessari skoðanakönnun er auðvitað fylgistap Samfylkingarinnar en í gær voru ýmsar skýringar á lofti. Formaður fylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, taldi að skýringanna væri að leita í því að fólki hafi fundist hann ganga heldur óvasklega fram þegar heilbrigðisráðherra féll í yfirlið í beinni útsendingu.
Að mati DEIGLUNNAR gerir formaður Samfylkingarinnar full lítið úr sjálfum sér og kjósendum hennar með slíkri yfirlýsingu. Með engu móti verður séð að nokkuð athugavert hafi verið við framgöngu Össurar og ómaklegt að vega menn og meta eftir slíkum augnabliks atvikum. Hins vegar er skrýtið að formaðurinn skuli hafa það álit á sínum eigin stuðningsmönnum, að þeir hverfi frá flokknum í tuga prósentuvís, vegna þess að hann hafi ekki sýnt nægilega karlmennskudáð. Það er þá heldur rótlaust fylgi sem þessi „stóri“ jafnaðarmannaflokkur telur sig eiga. Skýringanna á fylgistapi Samfylkingar er að mati DEIGLUNNAR að leita í þeirra eigin málflutningi í öryrkjamálinu.
En af hverju eykst þá fylgi VG? Þeir sem á annað borð eru hallir undir öfgastefnu á borð við þá sem VG boðar, eru vissulega auðveld bráð þegar mál eru borð á borin með þeim hætti sem raunin varð um öryrkjamálið. Gífuryrði og öfgar höfða einfaldlega meira til sumra en annarra. En hvað sem því líður er alla vega orðið ljóst, að Samfylkingin á ekkert tilkall lengur – hafi hún á annað borð einhvern tímann átt það – til þess að vera „hinn stóri íslenski jafnaðarmannaflokkur“. Þótt um þrjátíu prósent styðji VG núna verður það fylgi að teljast við jaðarmörk hins mögulega hvað slíkan flokk varðar. Aðalmálið er auðvitað sá kerfislægi vandi sem herjar á vinstri flokkanna; þeir eru að fiska á sömu miðum og sammengið verður aldrei stærra en 40-45%.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021