Til þess að þjóðfélagsumræða þjóni tilgangi sínum í lýðræðislegu samfélagi verða þátttakendur að temja sér ákveðna virðingu fyrir staðreyndum. Tilhæfulaust gaspur er ekki til þess fallið að verða að gagni, þótt það kunni að þjóna hagsmunum byggðum á skammtímasjónarmiðum. Hinar ýmsu mýtur verða til í umræðunni og öðlast sannleiksígildi í afleiddri munnlegri geymd. Gott dæmi um slíka mýtu er sú hugmynd sem vinstri mönnum hefur tekist ágætlega að innprenta í marga þátttakendur í þjóðfélagsumræðunni, að fréttastofa ríkissjónvarpsins sé ekkert annað en flokksdeild í Sjálfstæðisflokknum – Bláskjár.
Í Silfri Egils í gær var ágætt viðtal við Boga Ágústsson, fréttastjóra Sjónvarpsins, þar sem hann var ítrekað spurður um tengsl fréttastofunnar við Sjálfstæðisflokkinn. Í máli Boga kom fram, að þeir starsmenn fréttastofunnar sem sjá um að velja fréttir og raða þeim í forgangsröð eiga flestir bakgrunn á vinstri væng stjórnmálanna. Í fljóti bragði verður ekki séð að neinn einasti starfsmaður fréttastofunnar, ef undan er skilinn Bogi sjálfur, sem var í Heimdalli fyrir aldarfjórðungi, hafi nein tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Eru kenningasmiðrnir tilbúnir til að benda á þá starfsmenn sem þeir helst gruna um að ganga erinda Sjálfstæðaflokksins? Eru þeir jafnframt tilbúnir að styðja kenningu sína rökum?
Líklega ekki, af því þá er mýtan fallin. Eins og aðrar mýtur byggist þessi á því, að ekki sé upplýst um staðreyndir málsins. Mýtur eru andstæða upplýsingar. Umræða sem byggist á staðreyndum og röksemdum af þeim leiddum, er í senn skemmtilegri og líklegri til að skila einhverjum árangri en tilhæfulaust gaspur. Viðtal Egils Helgasonar við Boga Ágústsson var einmitt til þess fallið að varpa ljósi á staðreyndir málsins og í kjölfarið missir mýtan væntanlega marks.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021