Allt virðist nú stefna í að Ariel Sharon verði næsti forsætisráðherra Ísraelsmanna sem ganga að kjörborði í dag. Keppinautur hans Ehud Barak heldur þó enn í þá von, að mesta pólitíska kraftaverk síðari tíma gerist í dag og hann vinni upp 20% forskot Sharons. Víða hefur orðið vart ótta vegna yfirvofandi kjörs Sharons og telja margir að slíkt geti gert veikar vonir um frið í Mið-Austurlöndum að engu. Þegar rætt er um frið í þessu sambandi, verður auðvitað að hafa í huga að friður hefur aldrei ríkt á svæðinu. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir hverjir hafa umboð til þess að semja frið.
Barak hefur haft umboð allra friðarsinna til að semja frið, en þeir sem eru á varðbergi gagnvart arabaheiminum treysta ekki Barak, telja hann of linan. Margir hafa ekki fyrirgefið honum að hafa boðið Arafat að Palestínumenn fengju Jerúsalem í skiptum fyrir frið og telja að með því hafa hann rofið trúnað við ísraelsku þjóðina. Barak skortir þannig umboð stórs hluta ísraelsku þjóðarinnar til að semja frið. Það þarf nefnilega einhvern sem allir telja öruggt að muni ekkert gefa eftir fyrr en í fulla hnefanna til semja frið.
Þessu til rökstuðnings má benda á tvö dæmi úr sögu 20. aldarinnar. Þegar Alsírbúar kröfðust sjálfstæðis frá Frökkum treysti franska þjóðin engum til að leiða það mál til lykta nema Charles de Gaulle, sem kunnur var af fádæma þjóðerniskennd sinni. Allir vissu að hann myndi standa vörð um hagsmuni Frakklands, hver svo sem niðurstaðan yrði. Að sama skapi gat enginn Bandaríkjaforseti opnað fyrir samskipti við Kína nema kommahatarinn Richard Nixon. Honum einum var treystandi af þeim sem óbeit höfðu á hinu kommúníska Kína.
Þeir sem virkilega vilja frið í Mið-Austurlöndum munu taka honum fegins hendi, hvort sem samningur verður undirritaður af Arial Sharon, Ehud Barak eða Shimon Peres. Hinir sem meiri áhyggjur hafa af öryggi landsins eða eru fastir í einhverjum kreddum munu fremur treysta Sharon og Likud-bandalaginu til verksins. Fyrsti raunverulegi friðarsamningurinn sem Ísrael náðu við Arabaheiminn var undirritaður árið 1979 í Camp David. Hann náðist fyrir milligöngu Jimmys Carters, þáverandi Bandaríkjaforseta, og var undirritaðar af Anwar Sadat, forseta Egyptalands, og Menachim Begin, forsætisráðherra Ísrael. Begin var, líkt og Sharon, álitinn öfgamaður og hann var einnig í Likud.
DEIGLAN er vitaskuld ekki að halda því fram, að friðvænlegra muni horfa í Mið-Austurlöndum nái Ariel Sharon kjöri. En það er fásinna að halda því fram að kjör hans muni binda enda á allar vonir um frið í þessum heimshluta.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021