Hreinræktaður

Í gær lýsti Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, yfir framboði sínu í kjöri varaformanns Framsóknarflokksins. Telja verður Guðna afar sigurstranglegan.

Í gær lýsti Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, yfir framboði sínu í kjöri varaformanns Framsóknarflokksins. Telja verður Guðna afar sigurstranglegan. Þessi ábúðarfulli Sunnlendingur er einhvern þannig út garði gerður, að hann á allt að því guðlegt tilkall til frama innan Framsóknarflokksins. Hann er hreinræktaður framsóknarmaður – holdgervingur allra þeirra hugmynda sem menn gera sér um þennan ágæta flokk. Guðni hefur blómstrað í embætti landbúnaðarráðherra og engum dylst ást hans á viðfangsefninu, hvað svo sem mönnum kann að finnast um einstakar ákvarðanir ráðherrans.

Það er talið styrkja framboð Guðna enn frekar, að hann hefur aðrar skoðanir en formaður flokksins í veigamiklum málum. Hann er einarður andstæðingur Evrópusambandsins og hefur miklar efasemdir um kosti einkavæðingar. Guðni er kannski ekki beinlínis vinstrisinnaður en hann er í öllu falli hefðbundnari Framsóknarmaður en sjálfur formaðurinn. Kjör Guðna yrði svar Framsóknarflokksins við vaxandi fylgi Vinstrigrænna á landsbyggðinni. Með því að kjósa Guðna myndu framsóknarmenn senda þá skýr skilaboð til landsbyggðarinnar: Við erum dreifbýlisflokkurinn.

Ætli framsóknarmenn sér hins vegar að höfða til þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu er ekki líklegt að Guðni Ágústsson sé svarið. Það er lífsnauðsynlegt fyrir Framsóknarflokkinn að ná fótstöðu á höfuðborgarsvæðinu á nýjan leik. Samfylkingin hefur boðið fram Alfreð Þorsteinsson sem fulltrúa sinn í varaformannskjörinu og líklega hefur hann eitthvert fylgi í höfuðborginni. Ekki er þó líklegt að fjandsamleg yfirtaka kratanna verði að veruleika.

Það gæti verið snjall leikur fyrir framsóknarmenn að velja sér varaformannsefni úr hópi þeirra þingmanna sem ekki eru jafnframt ráðherrar. Þá koma helst til greina Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz og Ólafur Örn Haraldsson. Sá síðastnefndi hefur lýst yfir framboði en langsótt er að hann nái kjöri. Jónína Bjartmarz er líklegust til að veita Guðna keppni. Hún fór á kostum í öryrkjamálinu og vann í því traust margra framsóknarmanna. Þá er hún líklegri til að höfða til yngri kjósenda, en menn gleyma því gjarnan að grunnurinn að stórsigri Framsóknarmanna í kosningunum 1995, var mikið fylgi í yngri aldurshópunum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.