Meirihluti R-listans hefur nú – mánuði fyrir viðhorfskönnun meðal Reykvíkinga um framtíð Reykjavíkurflugvallar – ákveðið að hvaða kosti borgarbúa fá að velja um í könnuninni. Við fyrstu sýn virðast valkostirnir ákaflega skýrir: Á flugvöllurinn að vera áfram í Vatnsmýrinni eftir 2016 eða á hann að fara úr Vatnsmýrinni eftir 2016? Það er athyglisvert að hugsa til þess, að ef borgarstjórinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ekki skrifað undir samkomulag við samgönguráðherra um endurbyggingu vallarins og R-listinn hefði ekki samþykkt deiliskipulag til 2016, hefði verið mögulegt að færa völlinn úr Vatnsmýrinni mun fyrr. R-listinn ber því stærsta á ábyrgð á því, að margir þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni nú, munu ekki lifa það að sjá flugvöllinn á burt.
Enginn vafi er á því, eins og valkostunum er stillt upp, að yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda mun velja þann síðari – að fara. Hver vill festa flugvöllinn í Vatnsmýrinni um aldur og ævi? Bæði R- og D-listi hafa lýst hinu gagnstæða yfir. Það hefur ennfremur komið fram í skoðanakönnunum, að borgarbúa vilja nýta svæðið með öðrum hætti. En það mun hvort eð er ekki gerast fyrr en eftir fimmtán ár, þökk sé R-listanum, og það breytir engu þótt forystumenn hans ætli að eyða þrjátíu milljónum í að komast að hinu augljósa og um leið að beina sjónum borgarbúa frá sinni eigin ábyrgð á málinu.
En að hvaða marki verður þá niðurstaðan nothæf? Ekki að nokkru einasta marki. Flestir munu vilja völlinn burt úr mýrinni, en hvert sá hópur vill að völlurinn fari eftir 15 ár, er engin leið að segja neitt um. Þá munu einhverjir af þeim sem velja hinn kostinn, vera á þeirri skoðun að breyta eigi vellinum verulega, þótt það sé alls ekki öruggt. Til að viðhorfskönnun eða almenn atkvæðagreiðsla þjóni einhverjum tilgangi, verður að vera alveg skýrt hvað fólk er að velja. Tökum sem dæmi þjóðaratkvæðagreiðsluna um áfengisbann. Þar var alveg skýrt að þeir sem sögðu já vildu banna sölu áfengis, og þeir sem sögðu nei vildu halda henni áfram. Sama gilti um atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga.
Kjarni málsins er nefnilega sá, að hver svo sem niðurstaðan verður í þessari viðhorfskönnun, verður nauðsynlegt að halda aðra þegar fram líða stundir um endanlega staðsetningu flugvallarins. Þeir sem vilja að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, vilja kannski hafa hann innan borgarmarkanna engu að síður, t.d. á Lönguskerjum. Og þeir sem vilja að völlurinn verði áfram, vilja kannski að hluti hans verði færður út í Skerjafjörð til að skapa meira byggingasvæði í Vatnsmýrinni. Til þess að fólk geti tekið afstöðu til þessara kosta verða þeir að liggja skýrt fyrir að undangengnum ítarlegum rannsóknum og umræðu. Atkvæðagreiðslan nú þjónar því engum tilgangi, nema hugsanlega pólitískum tilgangi R-listans.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021