Framsóknarmaðurinn Hjálmar Árnason er klókur stjórnmálamaður. Fyrir helgina lék hann þann pólítíska stórleik, að lýsa yfir framboði sínu til ritara Framsóknarflokksins. Engum hefur áður dottið í hug, að sækjast sérstaklega eftir ritaraembætti í stjórnmálaflokki, nema náttúrlega í kommúnístaflokkunum sálugu. Austur-þýski Bændaflokkurin var reyndar um skeið í einhverjum tengslum við íslenska framsóknarmenn, en ekki er vitað til þess að það hafi haft áhrif á valdajafnvægi milli einstakra embætta innan Framsóknarflokksins. Yfirlýsing Hjálmars kom því flestum í opna skjöldu og því eðlilegt að menn velti því fyrir sér, hvað vaki fyrir Hjálmari?
Ljóst er að Hjálmar er metnaðarfullur stjórnmálamaður og talsvert umhugað um sinn eiginn pólitíska frama. Af hverju ætti slíkur maður að sækjast eftir embætti sem er nánast valdalaust og hefur enga pólitíska merkingu, og er þar að auki alls ekki illa mannað? DEIGLUNNI dettur fátt í hug. Helst er að Hjálmar vilji fá mynd af sér með formanni flokksins og nýkjörnum varaformanni á forsíðu dagblaðanna að afloknu flokksþinginu. Önnur skýring gæti verið sú, að hann ætli að bylta Siv Friðleifsdóttur úr oddvitasæti flokksins í Reykjanesi í næstu þingkosningum.
Hafa verður hugfast að Hjálmar er uppbótarþingmaður flokksins og afar ólíklegt að 2. sætið á framboðslista Framsóknarflokksins á Reykjanesi fleyti honum inn á þing í næstu kosningum. Og missi Hjálmar Árnason þingsæti sitt er pólitískur ferill hans að öllum líkindum á enda. Hann mun því, ef að líkum lætur, tefla sjálfum sér fram gegn Siv á þeim grundvelli að hann, sem ritari flokksins, sé einn af forystumönnum hans, auk þess sem hann taki umhverfisráðherra fram í hennar aðalmálaflokki, sem frumkvöðull vetnisframleiðslu á Íslandi – ef ekki í heiminum öllum.
Það verður spennandi að sjá hvort Hjálmar fær mótframboð í ritaraembættið. Ef svo fer sem horfir, þá verður Guðni Ágústsson sjálfkjörinn varaformaður og mesta spennan mun þá ríkja um kosningu í embætti ritara. Það væri reyndar mjög skondið að sjá helstu framagosa Framsóknarflokksins berjast um hið þýðingarlausa embætti ritara. Þess má geta að Unnur Stefánsdóttir, leikskólastjóri, er gjaldkeri félagsins og ekki hefur enn heyrst af mótframboði gegn henni…
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021