Það er ekki fögur framtíð sem bíður okkar jarðarbúa ef spár bandaríska varnarmálaráðuneytisins ganga eftir. Í leyniskýrslu Pentagon-manna, sem komst í fréttirnar fyrir nokkru, er talið að mannkyni stafi mesta ógnin af loftlagsbreytingum og öðrum umhverfisvandamálum í nánustu framtíð. Ekki nóg með að nokkrar af helstu borgum Evrópu muni sökkva í sæ innan nokkurra ára, að ógleymdum öllum þessum Kyrrahafseyjum sem enginn kann að nefna, og Bretland taki á sig mynd Síberíu, þá fylgja breytingunum óeirðir, stríð, flóttamannastraumur og hungur.
Talið er að skýrsla þessi muni koma sér illa fyrir Bush forseta í baráttu hans fyrir endurkjöri, en hann hefur ekki verið þekktur hingað til fyrir að setja umhverfismál á oddinn og fremur hlúð að hagsmunum olíujöfra og annarra stóriðjurekenda í þessu sambandi. Andstæðingur hans, Demókratinn John F. Kerry, hefur hins vegar viðurkennt að loftslagsbreytingar séu alvarlegt vandamál. Í skýrslunni segir ennfremur að hryðjuverkaógnin, sem Bush hefur lagt mikla áherslu á að berjast gegn, sé lítið vandamál í samanburði við mengun og gróðurhúsaáhrif.
Það þykir svolítið sérstakt að skýrsla af þessu tagi komi frá Pentagon og hefur hún vakið meiri athygli en fjölmargar aðrar skýrslur, sem varað hafa við sama vanda. Framsetning á umfjöllunarefninu er líka með nokkrum öðrum hætti, það er skýrslan er sett fram í hernaðarlegu tilliti. Það þarf þó ekki að leita langt til að sjá að þurrkar, hungur og annars konar meinsemdir leiða oft til ólgu í þjóðfélögum, sem oftar en ekki enda í óeirðum og jafnvel styrjöldum og fjöldamorðum. Nýjasta dæmið er ástandið á Haiti, fátækasta ríki Karabíahafsins. Einnig má nefna Rúanda, þar sem Hutu-menn drápu nokkur hundruð þúsund Tutsi-menn í apríl og maí árið 1994. Þar bættu langvarandi þurrkar ekki úr skák í því eldfima ástandi sem fyrir var.
Þetta eru svo sannarlega óþægilegar upplýsingar sem Pentagon setur fram. Vonandi eiga þær við engin rök að styðjast, en hver heilvita maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað til í þessu þegar fjöldi fólks lést í mestu hitum í manna minnum, sem urðu í Evrópu í fyrra. Þá vissu bændur í Suður-Frakklandi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar nokkurra sentimetra djúpur snjór lagðist yfir akra um daginn. Á sama tíma tóku Íslendingar fram sumarjakkana. Með öðrum orðum veðrið hefur tekið á sig óútreiknanlega mynd, og það víðar en á Íslandi.
En meira af skýrslum. Ekki alls fyrir löngu unnu nokkrir sérfræðingar skýrslu fyrir breska umhverfisráðuneytið, þar sem framtíðarsýn á breskt þjóðfélag árið 2020 var lýst. Greint var frá niðurstöðunum meðal annars í breska dagblaðinu The Guardian, þar sem dagur í lífi venjulegrar breskrar fjölskyldu árið 2020 var tekinn fyrir. Ýmsar athyglisverðar vangaveltur voru þar settar fram. Svo virðist sem rafallar, staðsettir í görðum húsa knúnir vind- og sólarorku, muni framleiða þá orku sem þurfi til heimilishalds í framtíðinni. Þá eigi aukið aðhald með rotvarnarefnum í matvöru og hátt olíuverð eftir að gera það að verkum að kostnaður við að senda ferskan mat langar leiðir verði óhóflega hár og meðal fjölskyldan hafi því hænsni í garðinum til þess að fá fersk egg og rækti grænmetið sjálf. Á móti komi að hækkandi hiti leiði til þess að hægt verði að rækta melónur utandyra. Þá má nefna að sífellt fleiri börn verði ættleidd því sæðisframleiðsla breskra karlmanna muni hafa dregist saman um 30% frá lokum seinni heimstyrjaldar, og eru aukaefni í mat helsta ástæða þess. Loks er í skýrslunni greint frá því að stórir hlutar Mið-Afríku verði óbyggilegir vegna loftlagsbreytinga. Hækkandi sjávarmál leiði til þess að sjór flæði yfir lálendar strandbyggðir og flóttamannastraumur aukist í samræmi.
Mynd bresku sérfræðinganna af daglegu lífi í Bretlandi árið 2020 er ekki með öllu slæm. Loftið er hreinna, almenningssamgöngur eru mun betri og þar sem fólk vinnur mikið heima fyrir eru umferðarþvögur að verða að fjarlægri minningu.
Hvort raunveruleikinn á næstu áratugum verði eitthvað í líkingu við þetta er ómögulegt að segja. Það er þó óskandi að skýrslur, eins og þessi bandaríska, leiði til þess að þjóðarleiðtogar heims, ekki síst forseti stærsta ríkis heims og þess sem mengar hve mest, gefi umhverfismálum meiri gaum á næstu árum. Það er svo annað mál hvort það verði orðið of seint.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007