Meira en 60% ríkja heimsins flokkast undir það að vera lýðræðisleg. Reyndar einungis í þeim skilningi að þar eru haldnar lýðræðislegar kosningar. Á árunum 1989-1996 bættust 49 ríki í hópinn, ekki hvað síst vegna falls járntjaldsins. Síðustu ár hafa síðan enn fleiri ríki bæst í hópinn. Þessar tölur segja þó ekki nema hálfa sögu.
Af þeim 117 ríkjum sem halda lýðræðislegar kosningar má aðeins telja 88 í hópi þeirra sem tryggja borgurum sínum víðtæk lýðræðisleg réttindi. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu bandarískra samtaka sem kallast Freedom House, en þau meta á hverju ári frammistöðu stjórnvalda og flokka ríki í hópa eftir frelsi borgaranna. Samtökin greina einnig frá hvort frelsi borgaranna hafi aukist eða minnkað á hverju ári.
Einnig kemur fram í rannsókn samtakanna að 56% íbúa heimsins búi í ófrjálsum ríkjum og að frá árinu 2001, hafi frelsi íbúa í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og stórum hlutum Asíu, minnkað. Meðal ástæðna er tilhneyging margra ríkisstjórna að skerða frelsi borgaranna með vísan til óttans við hryðjuverkaárásir og nauðsyn þess að efla öryggið.
En hvert leiða þessar tölur okkur? Til að fá grófa hugmynd um það hvernig framtíð Íraks og Afganistan gæti þróast þá er hollt að horfa til fyrrum Sovétríkjanna. Þar hefur einungis tekist að þróa lýðræði í löndum Austur-Evrópu og við Eystrasalt, það er á svæðum sem höfðu einhverja reynslu af kosningum eða almennum hugmyndum um mannréttindi, áður en þau lutu valdi kommúnismans. Helmingur fyrrum Sovétríkja hefur aldrei kynnst lýðræði og bæði Rússland og Úkraína eiga á hættu að falla út af lista yfir þau ríki sem geta talist lýðræðisleg. Rússland einkum vegna framgöngu forsetans og niðurstöðu þingkosninga í desember síðastliðnum.
Eftir innrásina í Afganistan annars vegar og Írak hins vegar hafa margir lagt áherslu á lýðræðisþróun í löndunum, og er það vel. Flestir virðast hins vegar vera á þeirri skoðun að kosningar séu einhvers konar töfralausn, og að í kjölfar þeirra verði til lýðræðisleg ríki í vestrænum skilningi. Eftir stendur sú spurning hvort menn telji það nægjanlegt að haldnar séu kosningar á fjögurra ára fresti til að land teljist í hópi lýðræðisríkja, hvort aðrir þættir verði ekki að fylgja með?
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005