Nýlega kynnti SPRON nýtt greiðslukort sem ber hið frumlega nafn e-kort. Kortaumsóknin er fjölmargar síður og þar verða umsækjendur að gefa ýmsar viðkvæmar persónuupplýsingar um sig t.d. margvíslegar upplýsingar um fjárhag, fjölskyldu, menntun, atvinnu, viðskipta- og vanskilasögu. En þessi hnýsni er bara toppurinn á ísjakanum. Til að bæta gráu ofan á svart þá kemur fram í umsókninni að viðkomandi samþykki að öll notkun hans á kortinu sé skráð og notuð ásamt hinum upplýsingunum til að búa til svokallað persónusnið um hann.
Þetta útspil hjá SPRON er áhyggjuefni, því hvers konar persónusnið eru ein mesta ógn við friðhelgi einkalífs sem þekkist í persónuréttinum. Það verður til þegar ýmiss konar persónuupplýsingar eru samkeyrðar og steypt saman til að finna hóp manna sem fellur inn í sameiginlegt mynstur að því er varðar hátterni, smekk, hæfileika, þarfir, veikleika o.fl. Algengt er að sálfræðingar eða aðrir á geðsviðinu sjái um vinnsluna og fari yfir útkomuna. Þetta er síðan yfirleitt notað til að selja og troða misgáfulegum hlutum upp á fólk sem er líklegt til að falla fyrir fagurgalanum.
Það skal því engan undra að persónusnið eru ein helsta aðferðin til að misnota persónuupplýsingar og jafnframt koma þeim í verð. Þetta er einmitt markmið SPRON með útgáfu kortsins. Sparisjóðurinn hefur í hyggju að maka krókinn með því að selja fyrirtækjum aðgang að persónuupplýsingum um eigin viðskiptavini. Þar sem það var útilokað að Persónuvernd myndi heimila beina sölu þá fann bankinn lausn til að komast fram hjá því. Fyrirtæki munu nú leita til SPRON og óska eftir að sparisjóðurinn sendi viðskiptavinum sínum tilboð frá þeim byggð á ákveðnum persónusniðum svo sem eftir smekk, hæfileikum, hátterni, þörfum og/eða veikleikum viðskiptavinanna. Bankinn mun því sjálfur senda viðskiptavinum sínum gylliboðin. Fallegt, ekki satt!
Það er kaldhæðnislegt að SPRON er líklega að kaupa þessar persónuupplýsingar af viðskiptavinum sínum á hlægilegu lágu verði. Reynsla frá Evrópu sýnir að menn eru tilbúnir að kaupa slíkar upplýsingar fyrir tugþúsundir króna en vísitölunotandi kortsins hjá SPRON mun líklega bara græða nokkra þúsund kalla á þessu. Svona verslun er þekkt vandamál í Evrópu og það var bara tímaspursmál hvenær þetta byrjaði hér á landi. Reynslan sýnir að þessar tilraunir byrja yfirleitt þannig að menn eru að dansa á gráu svæði í gróðaskyni eins og SPRON núna. Síðan fara menn að gera sér grein fyrir verðmæti upplýsinganna og við vitum ekki fyrr en að óprúttnir einstaklingar eru farnir reyna að koma höndum yfir heilsufarsupplýsingar til að selja tryggingarfyrirtækjum.
Því verður ekki neitað að SPRON græðir gífurlega á því hversu umræðan hér er komin skammt á veg. Fólk gerir sér ekki grein fyrir þvi hversu verðmætar þessar upplýsingar eru né hvers konar óskunda sé hægt að gera með þeim. Flestar fræðirannsóknir benda til þess að persónuleikinn fullmótist á unglingsárunum en breytist lítið eftir það. Þetta þýðir að eftir að maður selur sig með þessum hætti þá geta viðkomandi upplýsingarnar verið gildar um aldur og ævi. Jafnframt virðast svona upplýsingar alltof oft enda í röngum höndum þegar þær eru á annað borð komnar í umferð. Höndum sem selja t.d. líftryggingarfélögum og öðrum slíkum stofnunum upplýsingarnar.
Þetta er rafrænt vændi. SPRON er einfaldlega að biðja fólk um að selja sig fyrir smápeninga. Selja persónuleika sinn, langanir, þrár og venjur. Fólk getur náttúrlega selt sig á þennan hátt ef það vill. Við megum hins vegar ekki missa sjónar á alvarleika málsins. Kreditkortafærslurnar segja einfaldlega allt um okkur. Þær segja hvar okkur finnst gott að borða, hvar og hvernig við skemmtum okkur og hvað við gerum í frítíma okkar. Þær segja til hvað læknis við förum, hversu miklu við eyðum í sjoppum o.s.frv. Þær segja einfaldlega allt.
Sýnum okkur sjálfum virðingu!
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020