Þessa dagana er hart deilt um réttindi samkynhneigðra í Bandaríkjunum í kjölfar þess að Gavin Newsom borgarstjóri San Francisco ákvað að leyfa hjónabönd fólks af sama kyni. Bæði George Bush forseti Bandaríkjanna og Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu hafa lýst yfir andstöðu sinni við stefnu borgarstjórans. Bush er að íhuga hvort breyta eigi stjórnarskránni og banna þar afdráttarlaust hjónabönd samkynhneigðra, en Schwarzenegger hefur lýst þeirri túlkun sinni að þau séu þegar bönnuð samkvæmt lögum Kaliforníuríkis.
Málið er hið vandræðalegasta og mjög snúið þar sem meirihluti kaliforníubúa er á móti ráðhag af þessu tagi, á meðan flestir íbúar San Francisco eru fylgjandi. Að auki riðlast flokkslínur því fjöldi annarra stjórnmálamanna, bæði repúblikanar og demókratar hafa lýst yfir andstöðu sinni. Deilurnar ná jafnvel inn í ríkisstjórn Bandaríkjanna því dóttir Dick Cheney varaforseta er samkynhneigð og hann því í erfiðri stöðu. Cheney hefur reyndar lýst því yfir að hann muni taka afstöðu með forseta sínum og þá væntanlega gegn dóttur sinni ef ráðist verður í stjórnarskrárbreytingu af því tagi sem Bush hefur talað um. Þrýstingurinn á forsetann er mikill því Dan Ashcroft dómsmálaráðherra hefur ítrekað sagt þá skoðun sína í ræðu og riti að hann sé andvígur samkynhneigð og hverskonar réttindum til handa samkynhneigðu fólki. Málið verður svo enn flóknara þegar tekið er tillit til þess að á Bandaríkjaþingi sitja nokkrir yfirlýstir hommar, þar af að minnsta kosti tveir úr repúblikanaflokki forsetans.
Borgarstjórinn í San Francisco er þó ekki alveg einn á báti því nokkrir stjórnmálamenn, þeirra á meðal borgarstjórar í öðrum stórborgum hafa lýst yfir stuðningi við að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Það er erfitt að segja hvort meirihluti venjulegra Bandríkjamanna er fylgjandi eða andvígur því að hommar og lesbíur gangi í hjónaband, hins vegar liggur fyrir að flestir bandarískir stjórnmálamenn, bæði repúblikanar og demókratar, eru andvígir hjónaböndum af þessu tagi. En hafa þessar umræður og þessar miklu deilur í Bandríkjunum einhver áhrif á réttindastöðu samkynhneigðra á Íslandi?
Fyrir nokkrum árum samþykkti Alþingi að leyfa svokallaða staðfesta sambúð fólks af sama kyni. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hafi verið í samræmi í vilja meirihluta íslensku þjóðarinnar. Hins vegar hefur þjóðkirkjan dregið lappirnar og ekki viljað gefa saman homma eða lesbíupör, þó einstakir prestar hafi reyndar tekið af skarið og lagt blessun sína yfir þau. Það er sérkennilegt að kirkja þjóðarinnar skuli vera svo langt á eftir löggjafasamkvundunni, og reyndar þjóðinni sjálfri í þessu borðliggjandi réttlætismáli. Sem betur fer erum við Íslendingar komin miklu lengra á þeirri braut en Bandaríkjamenn að viðurkenna sjálfsögð mannréttindi samkynhneigðra, þeirra á meðal, réttinn til að deila kjörum með þeim sem maður elskar. Á síðustu árum hefur orðið alger hugarfarsbylting hér á landi nú þykja sambönd samkynhneigðra sjálfsögð og eðlileg og samkynhneigðir njóta að flestu leiti fullra réttinda á við aðra. Staðreyndin er sú að hvergi í heiminum hafa samkynhneigðir viðlíka jafnrétti og á Íslandi. Full mannréttindi þeirra eru að mestu tryggð samkvæmt íslenskum lögum og samfélagið viðurkennir homma og lesbíur sem jafngilda einstaklinga og annað fólk. En björninn er þó ekki unninn ennþá. Af einhverjum furðulegum ástæðum sem ekki er hægt að styðja neinum haldbærum rökum fá samkynhneigðir ekki að ættleiða börn.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020