Árið 2003 var frábært fyrir hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðinn og aldrei hefur orðið önnur eins eignamyndun í íslensku samfélagi. Þótt nokkuð sé liðið á nýtt ár ætlar pistlahöfundur að nefna til sögunnar bestu og athyglisverðustu hlutabréfakaupin sem áttu sér stað í Kauphöll Íslands á nýliðnu ári.
Í þessari upptalningu er hvorki litið til viðskipta sem félög áttu með eigin bréf né þeirra kaupa sem voru undanfari mestu verðbréfaviðskipta Íslandssögunnar þegar LÍ, Straumur, Íslandsbanki, Icelandair, Eimskip, Sjóvá-Almennar ofl. seldu og keyptu hlutabréf fyrir tugi milljarða sl. haust.
1. Egla hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar keyptu í janúar 2003 45,8% hlut Ríkissjóðs í Búnaðarbankanum á núvirtu meðalgengi 4,81. Kaupverð Eglu hf. var um 8,5 milljarðar kr. Í dag nemur eignarhlutur Eglu hf. í KB-banka um 17,5 milljörðum kr.
2. Magnús Kristinsson, útgerðarmaður frá Eyjum, eignaðist um 10% hlut í Straumi í nóvember sl. Hann keypti bréfin í gegnum eignarhaldsfélagið MK-44 ehf. Kaupverðið var um 1.855 milljónir kr. en verðmæti bréfanna í dag stendur í 2,5 milljörðum. Magnús er fengsæll á fleiri miðum en fiskimiðum.
3. Samherji hf. á Akureyri eignaðist í október tæplega 12% hlut í Kaldbaki fjárfestingarfélagi til viðbótar við þau 13% sem félagið átti fyrir. Sjávarútvegsrisinn greiddi 4,15 kr. fyrir hvern hlut. Kaldbakur stendur nu í 5,9 kr. á hlut þannig að hækkunin er orðinn 42%.
4. Kaldbakur er stærsti eigandinn í Tryggingamiðstöðinni með þriðjungshlut. Félagið hóf að kaupa bréf í TM í apríl sl. og hafði náð um 33% hlut í árslok. Kaupverð hlutanna var a bilinu 11-13,5 kr. fyrir hvern hlut. Áætlaður óinnleystur gengishagnaður Kaldbaks af TM er um 1,5 milljarður en gengi TM stendur í 17.
5. Í septemberbyrjun 2003 keyptu Jarðboranir hf. allt hlutafé í Björgun ehf. Við sama tilefni keypti Sigurður Helgason, forstjóri Björgunar, hlutafé í Jarðborunum að nafnvirði 36.619.114 á genginu 8,4. Gengi Jarðborana hefur hækkað umtalsvert á nýju ári eða yfir 50% og stendur í 15,2. Ætla má að Sigurður hafi grætt um fjórðung úr milljarði frá því að félögin tvö sameinuðust.
6. Meiður ehf., sem er í eigu Bakka(varar)bræðra, KB-banka, SPRON og minni sparisjóða, festi kaup á tæplega 9% hlut í Búnaðarbankanum skömmu áður en hann sameinaðist Kaupþingi í sumarbyrjun 2003. Bréfin hafa hækkað um rösk 90% og er hagnaður Meiðs um 2,3 milljarðar kr.
7. Mikið kapphlaup varð um bréf í Skeljungi þann 30. júni 2003. Á sama tíma og Kaupþing hamstraði Skeljungsbréf á gengi yfir 15 keyptu Sjóvá-Almennar 78.133.812 hluti að nafnverði hlutafjár í Skeljungi hf. á verðinu kr. 12,00. Það sama gerði Burðarás, fjárfestingaarmur Eimskipafélagsins. Seljandinn gjafmildi var Shell Petroleum Co Ltd. Einungis mánuði síðar yfirtóku Steinhólar ehf., Skeljung hf. og myndaðist þar feitur söluhagnaður hjá Sjóvá og Burðarás vegna fyrrnefndra viðskipta samtals að upphæð 600 millj. kr.
- Íslenskir bankar og útlendingar - 22. júní 2021
- Hitnar í ofnunum - 21. apríl 2021
- Kynslóðaskipti í sjávarútvegi - 22. mars 2021