Í síðustu viku varð mikið fjaðrafok í kringum lýtaaðgerð sem stóð til að fylgjast með í sjónvarpsþættinum Ísland í bítið. Lýtalæknirinn sem hugðist framkvæma aðgerðina var kallaður til landlæknis sem setti honum stólinn fyrir dyrnar þar sem aðgerðin fæli í sér auglýsingu. Varð niðurstaðan sú að aðgerðin verður framkvæmd fjarri sjónvarpsmyndavélum.
Embætti landlæknis byggði íhlutun sína á 17. gr. læknalaga nr. 53/1998 sem tekur á auglýsingum lækna. Í greininni kemur fram að læknum og stéttarfélögum þeirra beri að sporna við því að fjallað sé í auglýsingastíl um lækna og störf þeirra í fjölmiðlum. Á sama hátt beri þeim að vinna á móti því að eftir þeim séu höfð ummæli og viðtöl í fjölmiðlum í auglýsingaskyni. Jafnframt sé öðrum en læknum bannað að auglýsa starfsemi þeirra eða stuðla að því á annan hátt að sjúklingar leiti til ákveðins eða ákveðinna lækna.
Þessi grein er mjög rúm og í fljótu bragði mætti halda að næstum öll fjölmiðlaumfjöllun gæti fallið undir umfjöllun í “auglýsingastíl” eða ummæli og viðtöl í “auglýsingaskyni”. Framkvæmdin bendir hins vegar til hins gagnstæða. Læknar og læknisfræðin er inn á heimilum okkar nánast á hverjum degi í fréttum og þáttum um læknisaðgerðir. Sem dæmi má nefna að sérstakir þættir hafa verið í sjónvarpi þar sem fylgst er með mjaðmaskiptaaðgerðum, hjartaþræðingu og fjölmörgum öðrum aðgerðum. Þrátt fyrir það, skv. bestu vitnsekju undirritaðs, virðist sem embættið hafi nánast aldrei fett fingur út í framkomu lækna í sjónvarpi eða fjölmiðlum.
Þetta tómlæti vekur upp spurningar um réttmæti þess að Landlæknisembættið skipti sér núna af umfjöllun um lýtalækningaraðgerð í fjölmiðlum. Hin meinta auglýsing sem lýtalæknirinn á að fá er í engu frábrugðin þeirri auglýsingu sem aðrir læknar hafa fengið fyrir að koma fram í sjónvarpi eftir velheppnaða aðgerð eða t.d. við að fara í gegnum hjartaþræðingaraðgerð með sjónvarpsmyndavél gínandi yfir sér. Auglýsingin hlýtur alltaf að felast í jákvæðri umfjöllun um einhvern nafngreindan lækni. Það að fjalla átti mjög ítarlega og með alþýðlegum hætti um viðfangsefnið hlýtur í versta falli að fela í sér stigsmun en ekki eðlismun á nákvæmlega sama hlutnum. Með tilliti til þess að lagagreinin er afdráttarlaus í því að banna alla háttsemi af þessum meiði þá verða að teljast yfignæfandi líkur á því að ef annað er skilgreint sem auglýsing þá sé hitt það einnig.
Landlæknisembættið rökstuddi hins vegar bannið í beinni útsendingu í síðustu viku. Voru röksemdir þess einkum tvær. Í fyrsta lagi var bent á að yfirleitt þegar læknar kæmu fram og fjölluðu um aðgerðir þá væru það yfirleitt aðgerðir sem væru framkvæmdar á spítala en ekki inn á stofum. Í öðru lagi þá væru slíkar aðgerðir nauðsynlegar sjúklingnum. Öðru máli gengdi um fegrunaraðgerðir sem væri ónauðsynleg þjónusta á opnum markaði.
Þessar röksemdir standast ekki nánari skoðun. Flestir læknar sem starfa inn á spítala eru einnig með stofu þar sem þeir eru í virkri samkeppni við aðra lækna á sínu sérsviði. Hvort sem um er að ræða aðgerð á spítala eða stofu þá er kastljósinu í báðum tilvikum beint á jákvæðan hátt að ákveðnum lækni vegna aðgerðar sem gæti hugsanlega skilað sér í auknum viðskiptum á stofunni. Áhrifin eru nákvæmlega þau sömu. Jafnframt er ekkert í læknalögum sem bendir til þess að staðsetning aðgerðar skipti nokkru máli þ.e. hvort hún sé framkvæmd inn á stofu eða spítala.
Að sama skapi veltir maður fyrir sér vandlætislegri umfjöllun embættis landlæknis um lýtalækningar sem grein í læknisfræði. Er engu líkara en embættismenn þar líti á greinina sem annars flokks og að önnur sjónarmið eigi að gilda um fegrunaraðgerðir en aðrar læknisfræðilegar aðgerðir. Fegrunaraðgerðir eru hluti af læknisfræðinni hvort sem okkur líkar það betur eða verr og á meðan svo er þá eiga að gilda nákvæmlega sömu sjónarmið um slíkar aðgerðir og aðgerðir á öðrum sviðum læknisfræðinnar. Enda er ekkert í læknalögum sem bendir til þess að önnur sjónarmið eigi að gilda þar um.
Það er því ljóst að afstaða embættis Landlæknis á aðgerðinni á þessum forsendum er frekar hæpin og ekki í neinu samræmi við eigin fordæmi. Það verður að teljast líklegra að afstaða embættisins hafi sprottið upp af sama meiði og hjá öðrum sem gagnrýndu aðgerðina. Vegna siðferðislegra spurninga í kringum þá staðreynd að þarna var verið að fara að krukka fyrir opnum tjöldum í tiltölulega lýtalausan einstakling til að veita honum einhvers konar sáluhjálp.
En siðferðislegar spurningar réttlæta ekki að banna aðgerðina á allt öðrum forsendum. Það er eins ómálefnaleg stjórnsýsla og hugsast getur. Í stað þess áttu embættismenn landlæknisembættisins frekar að nýta sömu úrræði og við hin höfum ef okkur er misboðið. Einfaldlega skipta um stöð!
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020