Fyrir helgi samþykkti Alþingi lög til höfuðs einum samningi – samningi um kaup KB-banka á SPRON að undangenginni breytingu sparisjóðsins í hlutafélag. Setning laganna orkar mjög tvímælis þegar hún er skoðuð í ljósi þeirra hugmynda sem menn almennt hafa um réttarríkið og meginviðmið þess.
Rétt er að árétta áður en lengra er haldið að með þessum pistli er pistlahöfundur ekki að taka afstöðu til þess hvaða reglur hann telur að eigi að gilda um sparisjóði, breytingu þeirra í hlutafélag og sameiningu þeirra innbyrðis eða við bankana. Raunar er það svo að höfundur er stuðningsmaður sparisjóðaformsins og hefur ekki verið fylgjandi því, þó hann ráði þar engu um, að sparisjóðum sé breytt í hlutafélög, þeir sameinist stóru bönkunum og allra síst að stofnfjáreigendur hirði hagnað af því. Í þessum pistli er ekkert fjallað um þetta efni, heldur aðeins drepið á því hvort setning laganna sem Alþingi samþykkti fyrir helgi samrýmist meginviðmiðum réttarríkisins.
Það er viðtekin skoðun í fræðunum að til að fullnægja kröfum réttarríkisins þurfi lög að vera með tilteknum hætti bæði að því er varðar setningarhátt þeirra, form og efnislegt inntak. Meðal þess sem réttarríkið krefst af lögum er að þau séu almenn, og taki til allra sem eins stendur á um, en skulu ekki beinast með beinum eða óbeinum hætti að einstökum mönnum, atburðum, löggerningum o.þ.h. Þau skulu horfa til framtíðar, vera framvirk en ekki afturvirk. Þá skulu lög vera tiltölulega stöðug, vísa mönnum veg þannig að þeir geti hagað athöfnum sínum í samræmi við þau, og áttað sig á því með hvaða hætti hægt sé að ná tilteknum leyfilegum markmiðum sem menn ætla sér.
Breytingar þær sem gerðar voru á löggjöf um sparisjóði sem Alþingi samþykkti fyrir helgi eru ekki í fullkomnu samræmi við ofangreind viðmið réttarríkisins. Þeim er beint að einum tilteknum samningi sem gerður var í góðri trú í samræmi við þær reglur sem giltu þegar hann var gerður. Lögin breyta forsendum þess löggernings á þann hátt að samningsaðilum er ófært að efna samninginn í samræmi við þau markmið sem þeir settu sér. Samningurinn er með óbeinum hætti felldur úr gildi.
Gildandi lögum sem vísuðu mönnum tiltekinn veg sem menn fylgdu var skyndilega breytt með hraða og offorsi – stöðugleikinn í lagaumhverfinu að engu hafður. Hraðinn var mikill, öllum meðulum beitt til að lögin yrðu sett fyrir tiltekna tímasetningu sem réði úrslitum um það hvort samningurinn yrði efndur – meðal annars leitað afbrigða frá þingsköpum til að hraða mætti afgreiðslu frumvarpsins. Það er því óhætt að fullyrða að ásetningur meirihluta þingmanna til að standa að málum með þessum hætti hafi verið hár. Að yfirlögðu ráði ákvað meirihluti þingsins að höggva nærri meginviðmiðum réttarríkisins, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006