Til að byrja með er rétt að taka það fram að túlkanir manna á Íslam eru margar. Þetta er ekkert frábrugðið öðrum trúarbrögðum, flestum er til að mynda kunnugt um deilur kristinna manna í gegnum aldirnar. Það er því erfitt að tala um hina einu réttu túlkun á Íslam. Frávikin eru mismikil, en þó má draga skýra línu á milli landa þegar litið er á birtingarmynd trúarinnar.
Höfuðblæjan er líklega það tákn Íslam sem fer hvað mest fyrir brjóstið á vestrænum mönnum. Sérstaklega þykir mörgum það óhuggulegt að konur séu neyddar til að hylja andlit sitt, jafnvel með neti yfir augum, eins og tíðkast í sumum héruðum Afganistan. Vissulega er tekið fram í Kóraninum að konur skuli hylja hár sitt en túlkun frjálslyndari manna á því atriði er sú að allir eigi að vera jafnir. Þannir verndi höfuðklæðið konurnar fyrir augngotum karlmanna og þær fái því frelsi til að ganga um götur óáreyttar.
Hvergi er tekið fram að konur verði að hylja andlit sitt. Þá túlkun, sem og ákvæði um það að hár skuli hylja, er miklu eðlilegra að útskýra með þeim aðstæðum sem ríktu á tímum Múhameðs. Í eyðimerkursamfélaginu var klæðaburður fólks að mörgu leyti líkur því sem hann er í dag, víðar skikkjur og einhvers konar höfuðbúnaður til að hlífa mönnum gegn sandstormunum. Lögmál Múhameðs taka ekki aðeins á því hvernig menn skuli hegða sér gagnvart Allah, því mjög skýrar reglur eru um það hvernig menn eigi að hegða sér í flestu því sem snýr að daglegum samskiptum. Lögin eru umdeild og reyndar má útskýra skiptingu Múslima í hópa með því hvernig þeir túlka þau.
Til að skilja hvers vegna konur í löndum Íslam ganga með andlitsblæju er gott að taka Afganistan sem dæmi. Í ákaflega fróðlegri úttekt Roberts D. Kaplan í bókinni Soldiers of God, segir hann frá reynslu sinni úr fjallaþorpum í norðurhluta landsins. Þar voru konurnar ekki aðeins lægra settar en karlmenn, heldur var umræða um þær vandræðaleg fyrir húsbóndann. Í karllægu samfélagi stríðshrjáðra manna, var konan í rauninni merki um veikleika. Þær voru iðullega í felum þegar ókunnuga bar að garði, en sáu samt sem áður um matseld og þrif. Þegar þær fóru út úr húsi var það iðulega með blæju og í fylgd karlmanna.
Þessi hefði hefur haldist í landinu þrátt fyrir fall Talibanastjórnarinnar og í raun erfitt að átta sig á því hversu djúpt hún liggur í þjóðfélagsmynstrinu. En hún kemur trúnni sjálfri ekkert við. Lögmál Múhameðs eru túlkuð af mönnum og útskýrð til að réttlæta þær aðstæður sem ríkja í hverju landi fyrir sig. Þegar Marx talaði um ópíum fólksins, átti hann ekki hvað síst við að í öllum samfélögum hafa trúarbrögð verið tækifæri valdhafanna, til að fá fólk til að sætta sig við bág kjör. Uppgang Vesturlanda má að miklu leyti skýra með aukinni veraldarhyggju, og trú á einstaklinginn frekar en Guð og Kirkjuna.
Höfuðblæjan er vissulega trúarlegt tákn. Bann við því að skýla eigin hári er hins vegar jafnslæmt og að neyða konur til að ganga með blæjuna. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þessi umræða að miklu leyti um umburðarlyndi. Við verðum að virða ólíkar skoðanir til þess að geta gert þá kröfu til annarra að þeir virði okkar. Staðreyndin er sú að fjölmargar konur velja það sjálfar að ganga með blæju og þá skoðun verðum við að virða.
Það er athyglisvert að fylgjast með þróuninni í Tyrklandi á síðustu árum. Þar hefur stjórnmálaflokkur sem kennir sig við Íslam setið við völd frá síðustu kosningum, án þess að gera tilraunir til að skerða mikilvæga þróun í átt að lýðræði og frjálsari markaði. Tyrkland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu en margt bendir til þess að leiðtogar þess vilji koma í veg fyrir inngöngu landsins. Í síðasta tölublaði The Economist er fjallað um málið í leiðara. Þar er réttilega bent á að engin þau rök sem notuð hafa verið gegn inngöngu landsins standist þegar til lengri tíma er litið. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort það gæti ekki haft alvarlegar afleiðingar ef hópur landa sem kennir sig við umburðarlyndi og lýðræði, hafnar inngöngu þjóðar, sem virðist hafa það eitt á móti sér að vera stjórnað af múslimum.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005