Bragðskyn mannsins er tiltölulega frumstætt og vanþróaðara en hjá mörgum öðrum dýrum þar sem skynjun bragðs er oft lykillinn að því að lifa af. Skynjun okkar á veruleikanum mótast að miklu leyti af því hversu mikilvægt það hefur verið fyrir okkur í gegnum tíðina að geta numið tiltekið áreiti til þess að geta lifað af. Hæfileikinn til þess að geta numið bragð virðist því ekki hafa ráðið úrslitum varðandi þróun mannsins. Þrátt fyrir það er þessi skynjun afar gefandi og eykur ánægju okkar á því að vera til.
Skynjun bragðs byggir á viðtökum sem staðsettir eru á skynfrumum í bragðlaukunum á tungunni. Hver bragðlaukur inniheldur hóp af 50 til 150 skynfrumum sem eru næmar fyrir efnaáreiti. Líftími hverrar skynfrumu er stuttur eða um 10 dagar og myndast stöðugt nýjar frumur í bragðlauknum til þess að koma í staðinn fyrir þær sem deyja.
Bragðskyni má skipta gróflega í skynjun á sætu, söltu, súru og beisku bragði. Ákveðin sérhæfing skynfrumanna er til staðar en er þó ekki algjör. Tungan er næmust fyrir sætu bragði fremst á tungunni, salti framarlega til hliðar, súru aftarlega til hliðar og beisku aftast. En skynjun okkar á bragði er mun flóknari en þessi grófa skipting gefur tilefni til að ætla. Augljóslega getum við greint og þekkt fjöldan allan af mismunandi bragði.
Þó að bragðskyn okkar sé að mörgu leyti frumstætt er hægt að þjálfa það og auka þannig hæfileikann til að greina og þekkja mismunandi bragð. Einföld leið til þess að þjálfa bragðskynið er að prófa mismunandi krydd og leggja á minnið hvernig þau bragðast. Fullt af kryddi er á boðstólnum í matvöruverslunum. Skemmtilegt getur verið að prófa eitthvað nýtt bragð og læra að þekkja það.
Maðurinn hefur lengi kítlað bragðlaukana og saga kryddsins er löng. Menn voru byrjaðir að nota krydd löngu fyrir þann tíma sem við höfum skráðar heimildir. Krydd var og er í raun enn verðmæt verslunarvara. Framandi krydd voru á miðöldum afar dýr enda flutt langar leiðir með miklum tilkostnaði. Sem dæmi þá var verð á pundi af engifer það sama og á heilli kind. Pipar var afar dýr og algengt að piparkorn væru seld í stykkjatali. Á tólftu öld var algengt í Evrópu að bókhald væri fært í verðeiningunni pipar og skattgreiðendum væri gert að borga skatta sína í kryddum. Mannslíf var þá talið vera virði eins poka af pipar.
Þrátt fyrir að mannslíf séu í dag sem betur fer ekki verðlögð með piparpokum eru krydd órjúfanlegur þáttur matargerðar og oft sá þáttur sem gerir mat góðan. Smekkur manna er auðvitað mismunandi, það sem einum finnst gott finnst öðrum vont. Grundvallaratriðið er að veita skynjunum sínum eftirtekt. Það er hluti þess að vera til. Krydd auka ánægju okkar af mat og gera lífið skemmtilegra.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004