Ef allir lesendur þessa helgarnestis eru jafngóðir — hver er þá bestur? Er maðurinn á myndinni jafngrannur, þrátt fyrir að hann sé augljóslega misfeitur? Þessum og fleiri áleitnum spurningum er velt upp í helgarnestinu.
|
Pistlahöfundur verður seint talinn ábyrgur faðir. Ein meginástæða þess er fólgin í þeirri staðreynd að hann á ekkert barn. Þrátt fyrir það hefir hann ítrekað sent skólastjóra Fósturskóla Íslands beiðni þess efnis að fá að halda framsögu á ársfundi skólans um nýjar og árangursríkar aðferðir í barnauppeldi.
Þó svo að flestir hafi verið of drukknir til að taka eftir því, þá gerðist nokkuð undarlegt á úrslitakvöldi Idol-stjörnuleitar. Þegar úrslitin voru tilkynnt birtist okkur sú pólitíska réttsýni sem er búið að heilaþvo landsmenn með undangengin misseri. Það einkennilega, sem ég vona að fleiri en ég hafi tekið eftir, var það að lúserarnir tveir hoppuðu hæð sína í loft upp þegar tilkynnt var að þeir hefðu tapað — á meðan sigurvegarinn stóð pollrólegur í gardínu og reyndi að meðtaka upplýsingarnar.
Hafi lesendum ekki þótt neitt athugavert við þessa framgöngu lúseranna, verð ég því miður að upplýsa þá um að þeir þjást af pólitískri réttsýni á lokastigi.
Eftir að hafa eytt hálfu ári í að reyna að ná fyrsta sæti er það merki um alvarlegan persónuleikabrest að fagna þegar þú tapar. Nær lagi hefði verið að strunsa foxillur af sviði og sverja þess dýran eið að hvílast ekki fyrr en tekist hefði að koma höggi á sigurvegarann. Auk þess sem það hefði verið miklu betra sjónvarpsefni!
Menn sem lifa eftir pólitískri réttsýni koðna niður. Grunnstef þeirra er að segja ekki það sem þeim finnst af ótta við að það veki alltof hörð viðbrögð. Bannað er að segja fólki að það sé orðið akfeitt, öllum eru veitt verðlaun á íþróttamótum og á verðlaunahátíðum er ekki lengur sagt: „Sigurvegarinn er…“ — slíkt myndi teljast alger hneisa, heldur er sagt: „Verðlaunin hlýtur…“. Ef fram fer sem horfir, verður grunnstef verðlaunahátíða í framtíðinni: „Bara báðir jafngóðir. Jibbý-Cola! Cheerios!“
Þá verður sko ekki gaman að lifa.
Í mínum huga er fjölgreindarkenning Alfred Binet aðeins angi sprottin af sama meiði um pólitíska réttsýni — allir eru gáfaðir á einhverju sviði! Þegar kenningin var sett fram, ruku félagsfræðingar og aðrir skottulæknar upp til handa og fóta og áttu vart orð til að lýsa snilli þessa manns. Ég var hins vegar alltaf frekar skeptískur en sannfærðist þó endanlega þegar ég las kenningu hans um sjálfsþekkingargreind. Reyndar varpar kenningin alveg nýju ljósi á Hödda villing í Ölduselsskóla, sem þrátt fyrir allt virðist bara hafa verið algert undrabarn á sviði hnefaréttar!
Með þessu er ég þó ekki að segja að menn eigi gjörsamlega að eipa og láta allt flakka um alla. Þannig er ég ekki hlynntur því að menn sýni óíþróttamannslega framkomu í árlegu Yatsí-boði familíunnar til að bera sigurorð af litlum frændsystkinum, svindili á prófum til að ná betri árangri og kalli börn sín fitubollur til þess eins að styrkja annars brenglað sjálfsmat sitt.
Allt er best í hófi. En því verður ekki neitað að mótlæti er algerlega horfið úr uppeldi barna — og meðlæti komið í staðinn! Enda óttast Landlæknir að yfir þriðjungur íslenskra barna eigi við offituvandamál að stríða. En það má ekki segja elsku litlu krílunum að hætta að panta sér mæjónespizzur yfir Mortal Combat tölvuleiknum og fara í staðinn út að jogga — nei, það myndi algerlega rústa sjálfsmynd barnanna!
Auðvitað er það þröngt einstigi sem þarf að feta í uppeldi barna, en það eru bara ekki allir jafngáfaðir, jafnfallegir og jafnsniðugir. Og því fyrr sem við kennum börnum okkar að sumir eru öðrum fremri — því betra. Það er ekkert unnið með því að veita öllum verðlaunapeninga, því einhvers staðar sleppir leikaraskapnum og miskunnarlaus raunveruleikinn tekur við. Og þegar ungarnir fljúga loksins úr ofvernduðu hreiðrinu er hætt við að lendingin verð hörð — enda vonlaust að fljúga á lánuðum fjöðrum.
Góða helgi, Helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007