Málefni Fréttablaðsins hafa verið mjög í brennidepli að undanförnu, einkum vegna þess sem virðist vera slæm fjárhagsstaða blaðsins. Engum blöðum er um það að fletta að tilkoma Fréttablaðsins hefur sett íslenskan blaðamarkað í nokkurt uppnám og haft talsverð áhrif á afkomu bæði Morgunblaðsins og DV, þó sérstaklega hins síðarnefnda. Þarf því ekki að undra að DV og þeir fjölmiðlar sem undir það heyra, t.a.m. Pressan á Strik.is, sýni erfiðleikum Fréttablaðsins sérstakan áhuga. Og víst er að sá fréttaflutningur er ekki með öllu tilefnislaus, því blaðið mun víst ekki koma út í dag, miðvikudag.
Aðstandendur Fréttablaðsins mega þó eiga það að þeim hefur tekist á rétt rúmu ári að gera blaðið að áhrifamiklum og víðlesnum fréttamiðli. Þótt dreifing blaðsins sé ekki hnökralaus, hefur það mjög mikla dreifingu og samkvæmt könnunum lesa miklu fleiri Fréttablaðið en DV. Áhrif miðils fara m.a. eftir lestri (eða áhorfi/hlustun) en þó ráða ýmsir þættir að sama skapi miklu um, t.a.m. orðspor og áreiðanleiki. Útbreiðsla Fréttablaðsins mun að sama skapi renna frekari stoðum undir fjárhagslega stöðu blaðsins, þar sem auglýsendur sjá sér í auknum mæli hag í að auglýsa í blaðinu.
Hvað varðar innihald blaðsins má alltaf deila um hvort fréttaflutningur miðla sé góður eða ekki, og örugglega eru tvær hliðar á þeim peningi eins og öðrum. Blaðið er hins vegar prýðilega heppnað hvað uppsetningu varðar og vissulega er það kostur fyrir marga að fréttir þess og greinar eru í styttri kantinum. Það myndi hins vegar bæta miklu við blaðið ef í því væri að finna eina mjög ítarlega frétt eða fréttaskýringu á degi hverjum. Það hefur líka verið löstur á Fréttablaðinu að einstakir blaðamenn þess virðast komast upp með að birta nafnlausan óhróður í persónulegum eða pólitískum tilgangi undir liðnum Fólk í fréttum aftast í blaðinu.
Það er skoðun Deiglunnar að Fréttablaðið sé komið til að vera og að blaðið muni festa sig enn frekar í sessi á komandi misserum. Vel má vera að nýir aðilar komi að útgáfu blaðsins en ætla má að rekstrargrundvöllur þess sé í versta falli viðunandi til lengri tíma litið. Fáir fjölmiðlar mala eigendum sínum gull, nema ef vera skyldi blað allra landsmanna, en rekstur þess gengur að jafnaði nokkuð vel. Ekki má gleyma því að íslensk fjölmiðlun gengur að miklu leyti út á að tryggja völd og áhrif. Fréttablaðið er í því tilliti verðmætur miðill og sú staða mun tryggja framtíð þess – burtséð frá því á hverra höndum útgáfa blaðsins verður.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008