Með aukinni notkun veraldarvefsins hér á landi fóru ýmis konar spjallþræðir að ryðja sér rúms. Fyrst voru einu spjallþræðirnir af viti á hugi.is og visir.is en síðan fór þeim fjölgandi. Í dag skipta þeir hundruðum og eru allt frá því að vera fáfarin athugasemdakerfi við einstök blogg upp í að vera risa spjallþræðir með mörg hundruð notendur. Spjallþræðirnir eru almennt skemmtilegt og áhugavert tjáningarform sem gefa öllum kost á að birta sínar hugsanir og skiptast á skoðunum við aðra. Því miður þá hafa spjallþræðir fengið á sig sífellt neikvæðari stimpil.
Það leynist nefnilega misjafn sauður í mörgu fé og íslensku spjallþræðirnir voru varla búnir að slíta barnskónum þegar í ljós kom að sumir notendur sem skrifuðu þar réðu ekki við ábyrgðina sem fylgir þessu tjáningarformi. Þessir svörtu sauðir fóru að ráðast með ærumeiðingum á einstaklinga út í þjóðfélaginu, oftast undir nafnleynd eða fölsku flaggi. Á síðustu vikum hafa komið upp tvö tilvik sem hafa vakið athygli á þessari óheillastöðu og kristallað vandamálið. Í fyrsta lagi hefur forsvarsmaður bifhjólaklúbbs kært til lögreglunnar í Kópavogi meiðandi ásakanir um kynferðisbrot sem voru birtar nafnlaust á vefnum femin.is. Í öðru lagi þá hefur misnotkun á nafni og netfangi annars einstaklings á spjallþræði Víkurfrétta verið kærð til lögreglunnar í Keflavík. Í því máli þóttist einstaklingur vera einhver annar notandi og dreifði óhróðri undir því flaggi.
En menn eru ekki bara að misstíga sig nafnlaust. Alþingismaður Frjálslynda flokksins var í síðustu viku harðlega gagnrýndur fyrir ábyrgðarlaus skrif inn á vefnum malefnin.com sem er líklega vinsælasti spjallþráður landsins. Skrif hans voru eingöngu ábyrgðarlaus og hann virðist ætla að sýna manndóm og biðjast afsökunar á þeim. Jafnframt verður að geta í þessu samhengi að það er ólíku saman að jafna að annars vegar kasta fram ábyrgðarlausum skoðunum undir nafni og hins vegar að vega úr launsátri eins og þekkist á spjallþráðunum. Það að níða skóinn af samborgurum sínum án þess að þora að koma fram undir nafni er einfaldlega hámark aumingjaskaparins.
Sumir hafa þó gengið miklu lengra undir nafni og hafa nálgast nafnlausu níðingana. Það er nefnilega rétt að geta þess að fjórða málið er líklega í uppsiglingu. Varaformaður íslenskra þjóðernissinna virðist hafa gjörsamlega tapað sér inn á spjallþræði á erlendu haturssíðunni http://vnnforum.com þar sem meintir yfirburðir hvíta kynstofnsins eru predikaðir. Þar setur hann m.a. fram gróf ærumeiðandi ummæli um forsetafrúna og uppruna hennar. Einnig endurflytur hann rasistaummælin sem hann var dæmdur fyrir í Hæstarétti og kemur jafnframt með nýjar kenningar um aðdraganda dómsins. Er helst að skilja á honum að Sameinuðu þjóðirnar hafi fyrirskipað rannsóknina á ummælum hans í DV. Ef ummælin á viðkomandi spjallþræði eru í raun eftir varaformanninn þá er hann líklega í töluverðum vandræðum því vitleysan í honum er mun meiri og alvarlegri en hann var dæmdur fyrir forðum. (Hér er slóðin á umræðuna.)
Þessi atvik munu vonandi ná að beina kastljósinu að spjallþráðunum nógu lengi til að hægt sé að koma mönnum í skilning um að það er enginn munur á birtingu á veraldarvefnum og á prenti nema kannski að veraldarvefurinn hefur mun meiri útbreiðslu. Birting á veraldarvefnum gefur einstaklingum sömu réttindi og skyldur og birting annars staðar þ.m.t. hugsanlega skaðabóta- og refsiábyrgð vegna ærumeiðinga eða árása á minnihlutahópa. Má í þessu samhengi benda á pistil sem Borgar Þór Einarsson skrifaði hér á Deiglunni 1. október 2001, Ábyrgðarleysi á Netinu.
Lögreglukærurnar tvær vegna ærumeiðinga verða því prófsteinn á hið opinbera til að meðhöndla meinta refsiverða háttsemi á spjallrásunum. Ef hið opinbera mun taka á sama hátt á ærumeiðingum á spjallrásum og í öðrum miðlum þá munu nafnlausu níðingarnir og aðrir snillingar skilja að þeir komast ekki upp með slíka hegðun þar frekar en annars staðar. Þá yrði mikið unnið.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020