Enginn veit enn hvort forsetakosningar verða á þessu ári eða ekki. Það er einnig óljóst hvort sitjandi forseti hyggst bjóða sig fram að nýju eða ekki. Þá hefur, enn sem komið er, enginn lýst yfir trúverðugu framboði sem gæti ógnað sitjandi forseta. Þjóðin er því í raun fullkomlega ómeðvituð um framtíð æðsta embættis landsins þegar nokkrir mánuðir eru í kosningar.
Það verður að teljast afar undarleg staða að þegar um fimm mánuðir eru til forsetakosninga er óvíst hvort sitjandi forseti verður í kjöri. Í kosningabaráttunni árið 1996 var mikið rætt um það hvort setja ætti lög um hámarksfjölda kjörtímabila sem forseti Íslands mætti sitja og voru frambjóðendur ítrekað beðnir um skoðun sína á því. Ólafur Ragnar Grímsson var tregur til að gefa stórar yfirlýsingar en sagðist þó telja að tvö til þrjú kjörtímabil væru hæfilegur tími. Ólafur hefur nú verið forseti í tvö kjörtímabil og eðlilegt að spurt sé hvort hann hyggist bjóða sig fram til forseta þriðja kjörtímabilið í röð og jafnframt hvort það verði hans síðasta kjörtímabil.
Fram að þessu hefur Ólafur Ragnar Grímsson svarað því til að yfirlýsingar um framboð séu ótímabærar. Hvort sem hann hyggst bjóða sig fram að nýju eða ekki er ljóst að tíminn er naumur. Ef forsetinn býður sig ekki fram hafa aðrir hugsanlegir frambjóðendur mjög stuttan tíma til að setja í gang kosningabaráttu, afla fjár og yfir höfuð taka ákvörðun um hvort æskilegt sé að fara í framboð. Að sama skapi hafa hugsanlegir mótframbjóðendur forsetans stuttan tíma til undirbúnings, fari forsetinn aftur fram, og ósennilegt að nokkur leggi í mótframboð við sitjandi forseta með einungis nokkurra mánaða fyrirvara. Með því að draga það að gefa yfirlýsingar um hvort af framboði verður eða ekki heldur forsetinn þannig öðrum mögulegum frambjóðendum í gíslingu. Um leið styrkir hann stöðu sína og dregur úr líkunum á því að nokkur bjóði sig fram á móti honum og líkunum á því að viðkomandi gæti náð kjöri.
Tæknilega séð getur forsetinn dregið að gefa yfirlýsingu um framboð sitt þangað til fimm vikum fyrir kjördag en þá rennur út frestur til að skila inn framboðum og meðmælendum. Þótt forsetinn bíði varla svo lengi með yfirlýsingu um framboð verður að segja að sá tími sem nú er til stefnu er lýðræðinu ekki til framdráttar. Forsetaembættið er einn af hornsteinum lýðræðisins og eðlilegt að gera þá kröfu til forsetans að hann sjái sóma sinn í því að tilkynna hvort hann hyggur á endurkjör með hálfs árs til eins árs fyrirvara.
Eins og staðan er í dag er óljóst hvort forsetinn býður sig fram að nýju og líklega bara forsetinn einn sem veit hvort af framboði verður. Hitt er þó ljóst að flestir virðast gera ráð fyrir því að Ólafur bjóði sig fram aftur og að hann verði einn í framboði. Miðað við fyrri yfirlýsingar forsetans eru þó yfirgnæfandi líkur á að þetta yrði síðasta kjörtímabil hans. Eðlilegt er að hvetja forsetann til að lýsa því yfir sem allra fyrst hvort hann ætli í framboð í sumar og sömuleiðis að láta uppi hvort næsta kjörtímabil verði síðasta kjörtímabil hans. Þjóðin á skilið skýr svör.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020