Fyrir helgina birti þekkt vísindatímarit niðurstöður rannsóknar sem gefur til kynna að eldislax, og þá sér í lagi fiskur alinn í N-Evrópu, innihaldi ofmagn ýmissa óæskilegra efna. Þannig steðji ógn að ónæmis- og æxlunarkerfum, og sömuleiðis aukist líkur á því að fá krabbamein síðar á lífsleiðinni sé eldislax neytt oftar en einu sinni í mánuði. “Neysla eldislax eykur líkur á krabbameini!” hefur verið klassísk yfirskrift frétta af þessu efni.
Í rannsókninni voru villtir laxar og eldislaxar af ýmsum uppruna greindir og bornir saman og kom í ljós að mun meira magn uppsafnaðra óæskilegra efna var að finna í eldislaxi. Þetta má rekja til þess að hann er alinn á mjög einsleitu fóðri, fiskimjöli, en muninn milli landa má rekja til ólíks uppruna mjölsins. Evrópski laxinn er að jafnaði alinn á mjöli unnu úr afurðum N-Atlantshafsins en það telst í mengaðri kantinum. Það fannst semsagt skilgreindur munur. Gott og gilt.
En frá hverju er í raun og veru verið að segja? Það er nokkuð sterkt að kveðið í þeim staðhæfingum sem hafa verið básúnaðar um allt í fjölmiðlum undanfarna daga. Staðhæfingar sem auðvitað eiga að heyrast ef um staðreyndir er að ræða, en eru að sama skapi heldur hvimleiðar og ósanngjarnar ef ekki er grundvöllur fyrir þeim, eins og manni virðist í þessu tilfelli.
Talsmenn laxeldis, sérstaklega í Evrópu hafa brugðist ókvæða við þessum fréttum, enda ber mönnum alls ekki saman um hvaða viðmið sé rétt að nota þegar lagt er mat á magn óæskilegra efna. Þau eiturefnamörk sem notast var við í umræddri rannsókn eru ákveðin viðmið útgefin af EPA (United States Environmental Protection Agency) . Þau viðmið eru hinsvegar, skv. breska matvælaeftirlitinu, frá árinu 1991 og löngu orðin úreld. Viðmiðin sem gengið er útfrá í Evrópu eru aftur á móti allt annars eðlis, en teljast þó ekki rýmri. Þau eru fengin frá eftirlitsbáknum eins og t.d WHO (World Health Organization) og byggja á nýlegum niðurstöðum óháðra sérfræðinga.
Samkvæmt þeim er íslenski eldislaxinn t.d langt undir mörkum og ekkert minna af þessum óæskilegu efnum að finna í öðrum fæðutegundum, t.d. nautakjöti.
Þannig liggur fyrir enn eitt dæmið um hreint magnaða túlkun fjölmiðla á vísindagögnum. Maður fær það oft á tilfinninguna að fjölmiðlar líti á upplýsingarnar sem búa að baki tölugildum, viðmiðum og samhengi sem óþarfa málalengingu.
Þótt ætla mætti annað í kjölfar eldislaxúthrópana undanfarinna daga, þá herma sögur frá Bretlandi sem betur fer, að umræðan hafi ekki haft áhrif á sölu eldislax þar. En slíkar hrópanir hafa því miður tilhneigingu til að draga dilk á eftir sér. Einhvern veginn virðast slæmar fiskisögur fljúga hraðar og víðar en aðrar- og loða lengur við.
Úlfur úlfur!, eða eldislax eldislax!, eins og það hljómaði í þetta skiptið, er því vonandi kall sem er þagnað í bili.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007