Um síðustu helgi komst í heimsfréttirnar það uppátæki bandarísku söngkonunnar Britneyjar Spears að hafa gifst í skyndi æskuvini sínum Jasoni Alexander að morgni laugardags í Las Vegas. Ekki leið á löngu þar til önnur frétt barst þess efnis að hjónakornin hefðu gert þetta í gríni og gamansemi. Ætluðu þau ekki að standa við hjúskaparheit sín heldur fá brúðkaupið ógilt. Ógildingin náðist í gegn á mánudagsmorgni þegar dómstóll í Las Vegas tilkynnti að hjónabandið hefði verið fellt úr gildi.
Þar sem höfundur þessa pistils er mikill áhugamaður um glens og gamansemi fýsti hann að vita hvort slíkt sprell sem þeirra skötuhjúa Britneyjar og Jasonar, væri mögulegt hérlendis. Komst hann að raun um að örðugt getur verið samkvæmt íslenskum lögum að leika sama leik hér á landi.
Í fyrsta lagi getur par ekki gift sig hérlendis, einn, tveir og Geir, þar sem skilyrði hjónavígslu er að fyrir liggi vottorð löggilds könnunarmanns um að tilvonandi brúðhjón uppfylli svonefnd hjúskaparskilyrði. Hjúskaparskilyrðin eru nokkur, m.a. verða hjónaefnin bæði að hafa náð 18 ára aldri, vera lögráða, mega ekki vera skyld í beinan legg eða systkin og mega ekki vera þegar í hjúskap; sem sagt tvíkvæni er bannað. Könnun sem þessi tekur því nokkurn tíma. Hún stendur því í vegi að menn geti rokið til í gamansemi og látið gefa sig saman þegar í stað, líkt og þau Britney og Jason gerðu í Las Vegas um síðustu helgi.
Í öðru lagi er það galli á svona glens- og grínbrúðkaupum hérlendis að mikil fyrirhöfn getur fylgt því að losna úr slíku brúðkaupi aftur eftir að stofnað er til þess. Til að fá hjónavígslu ógilta þarf að höfða mál fyrir almennum dómstólum og fá hana þar fellda úr gildi. Rekstur dómsmáls tekur alla jafna nokkurn tíma, yfirleitt marga mánuði. Það væri því ekki hægt að hlaupa til eins og þau Britney og Jason gátu gert í Las Vegas og fá hjúskapinn ógiltan næsta virkan dag.
Við þetta bætist að til að fá hjúskap ógiltan samkvæmt íslenskum lögum þarf nokkuð mikið til. Slíkt getur, í grófum dráttum, gerst í fimm þröngum tilvikum:
a)hafi annað hjóna verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram (hér gæti m.a. verið átt við að annað hjóna væri mjög ölvað eða í annarlegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu við hjónavígsluna.)
b)hafi annað hjóna af vangá látið vígja sig öðrum en þeim sem það hafði bundist hjúskaparorði eða hafi það verið vígt án þess að það ætlaðist til þess (hér gæti fallið undir það þegar fólk lætur gefa sig saman í „þykjustunni“, en vaknar svo upp við vondan draum, gift.)
c)Hafi eiginkona annars hjóna eða eiginmaður komið því til að eiga sig með því að villa vísvitandi á sér heimildir eða leyna atvikum úr lífi sínu er mundu hafa fælt hitt frá hjúskapnum ef vitað hefði (hér undir gæti fallið að annað hjóna leynir því að hafa framið þjóðarmorð einhvern tímann á lífsleiðinni. Líklegt er að það myndi fæla hitt hjóna frá hjúskapnum.)
d)hafi annað hjóna verið neytt til vígslunnar.
e)hafi annað hjóna verið skylt hinu hjóna í beinan legg, eða til hliðar, eða það gerst sekt um tvíkvæni.
Sé a.m.k. einu ofangreindra skilyrða ekki fullnægt er ekki hægt að fá hjúskap ógiltan. Verða hjónaefnin við slíkar aðstæður að sæta því að fara fram á skilnað í samræmi við hjúskaparlög. Skilnuðum fylgir allnokkurt umstang og vesen, enda þarf þá að skipta eignum til helminga, hafi ekki verið gerður kaupmáli og eignir hjónanna fyrir hjúskap gerðar að séreignum hvors um sig. Ólíklegt er að menn geri kaupmála í tilefni af glensbrúðkaupi.
Af öllu ofangreindu má sjá að brúðkaup í ætt við þeirra Britneyjar og Jasonar um síðustu helgi er varla mögulegt hérlendis. Frjálshyggjumenn myndu kannski segja að íslensk löggjöf þrengdi um of að frelsi manna til að giftast upp á grín – að hér þyrfti að gera bragarbót á. Tveir einstaklingar eiga jú að vera frjálsir að því að gera hvaðeina sem þeim sýnist svo framarlega sem það skaðar ekki aðra. Þeir eiga því að vera frjálsir að því að giftast upp á grín. Lausnarorðið er frelsi – frelsi til fíflaláta.
Já, það er ekki laust við að það sé smá föstudagsfiðringur í pistlahöfundi dagsins.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006