Hvert kynferðisbrotamálið kemur nú á fætur öðru, og hin hryllilegustu þeirra snúa að kynferðislegri misnotkun á íslenskum börnum. Síðustu vikur og mánuði hafa fjölmiðlar landsins verið undirlagðir af fréttum um barnaníðinga, nú síðast í gær. Það vekur upp reiði að heyra um enn eitt málið af þessu tagi.
Nú síðast komst fjölskipaður Héraðsdómur Vestfjarða að þeirri niðurstöðu að sakir barnaníðings væru fyrndar, þrátt fyrir að sannað þætti að maðurinn væri sekur. Dómurinn miðaði fyrningarfrestinn við daginn sem sakborningurinn var tekinn til yfirheyrslu hjá lögreglu, en ekki við þann tíma þegar málið var kært. Þetta kemur frekar spánskt fyrir sjónir, sekur barnaníðingur gengur laus vegna tæknilegrar lögfræðitúlkunar. Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur hins vegar lýst þeirri skoðun sinni í fjölmiðlum að fyrningarfresturinn hafi ekki verið liðinn, þvert á álit Héraðsdóms Vesfjarða. Hún vekur athygli á því að lagaákvæðum var breytt árið 1998 og þar segir að fyrningartími miðist við að rannsókn beinist að ákveðnum sökunaut, en málið var kært sjö mánuðum áður en fyrningarfresturinn rann út. Héraðsdómur miðar hins vegar við þann tíma þegar sakborningi var gerð grein fyrir því að hann hefði stöðu grunaðs manns í málinu. Sif bendir jafnframt á að í 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga segi að „Fyrningarfrestur rofn[i] þegar rannsókn opinbers máls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi.“
Það er margt sem ekki er ásættanlegt í samfélaginu og ekki er samstaða um alla hluti. Verndun saklausra barna ætti þó að vera eitthvað sem allir gætu verið sammála um að sé forgangsmál, af þeirri einföldu staðreynd að þau þurfa á samfélaginu að halda til þess að verja sig, enda geta þau það ekki sjálf. Þau eru okkar ábyrgð. Það eru ýmsir gallar á kerfinu sem hægt er að laga til að koma í veg fyrir óþarfa þjáningar fórnarlamba barnaníðinga. Um slíkt ætti að vera samstaða meðal þjóðarinnar.
Það er ekki langt síðan að maður var dæmdur sekur í héraðsdómi fyrir kynferðisbrot gangvart stúlkubarni í litlum bæ úti á landi, en sakborningurinn áfrýjaði máli sínu til hæstaréttar fyrir tæpum 2. árum. Í dag gengur þessi maður laus í litla samfélaginu á meðan hann bíður eftir að málið verði tekið fyrir í hæstarétti. Á meðan þarf stúlkubarnið sem varð fyrir misnotkuninni að horfa upp á hann vafra um bæinn án eftirlits. Er þetta það sem við viljum bjóða börnunum okkar upp á? Fleiri svipuð dæmi er hægt að rekja. Fyrr í vikunni kom fram í fréttum að barnaverndarnefnd á á öðrum stað hafi veitt barnaníðingi viðvörun þegar upp komst um athæfi hans en ekki sent málið til lögreglu. Viðvörun! Í henni fólst að ef viðkomandi hætti ekki þessu þukli og káfi á börnunum yrði hann kærður. Er ekki eitthvað að? Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst að svona menn eigi ekki að fá tækifæri til þess að gera eitthvað þaðan af verra. Komi upp ásakanir um kynferðisglæpi á að kæra málið til lögreglu. Pólitískt skipuð nefnd á ekki að að veita viðvörun. Svona vinnubrögð eru ávísun á að alvarlegri atvik fylgi í kjölfarið. Nú ef maðurinn er saklaus leiðir lögreglurannsókn það þá í ljós. Þetta hlýtur að vera óástættanleg ástand fyrir okkur sem viljum teljast til siðmenntaðra þjóða.
Það er orðið tímabært að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða, hvort það er með nákvæmari lagasetningu, upplýsingum eða uppfræðslu barna. Úrbóta er þörf, ég held að flestir geti tekið undir það með mér. Í Bretlandi hafa stjórnvöld sett mikla peninga í áróðursherferð þar sem börn verða vöruð við barnaníðingum með auglýsingum og eftir öðrum leiðum. Gætum við hugsanlega gert eitthvað slíkt? Þegar á allt er litið virðist mér samt eitt standa upp úr, börn hafa enga málsvara, og því er takmörkuð áhersla lögð á mál sem snert þau. Þessu þurfum við sem fullorðin eru að breyta með samstilltu átaki. Sættum okkur ekki við það sem er óásættanlegt.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020