Á hádegi í dag mun gervihnötturinn Mars Express vera á besta stað með tilliti til samskipta við Beagle 2 eða rétt yfir lendingarstaðinum. ESA (European Space Agency) sendi Beagle 2 nýlega í átt að Mars og lenti farið þar fyrir jólin en sambandslaust hefur verið við Beagle 2 síðan þá. Um helgina lenti hins vegar geimfar NASA Spirit á Mars en það hefur m.a. sent einstakar litmyndir af yfirborði Mars til jarðar. Íslendingar hafa ekki haft tækifæri til að taka þátt í metnaðarfullum verkefnum að þessari stærð til þessa en loks munum við fá tækifæri til þess með samstarfi við ESA.
Ef áfram heldur sem horfir mun Ísland verða þátttakandi í geimferðaáætlun Evrópu sem stýrt er af Geimferðastofnun Evrópu, ESA (European Space Agency). ESA hefur vaxið og dafnað frá því að henni var komið á fót fyrir 28 árum. ESA er samvinnustofnun 15 evrópskra aðildarríkja sem eru leiðandi á sviði hátækni og þróunar, þar með talin eru öll Norðurlöndin nema Ísland.
Iðntæknistofnun Íslands kannar nú hvaða fjárhagslegan og tæknilegan ávinning íslenskt atvinnulíf og rannsóknaumhverfi hefur af samvinnu við stofnunina. ESA hefur lagt til að formlegt samband verði tekið upp við Ísland og stefnt er að samstarfssamningi, en hann felur í sér engar skuldbindingar fyrir Ísland en er grundvöllur samstarfs íslenskra hagsmunaaðila og ESA.
Hlutverk ESA er að móta framtíðarsýn Evrópu í geimferðamálum og auka tæknilegan, vísindalegan og fjárhagslegan ávinning Evrópubúa með nýrri geimtækni, gervihnöttum og geimförum. Framtíðarsýn ESA og Evrópusambandsins er sett fram í geimáætlun Evrópu sem er síðan þróuð og útfærð í formi verkefna sem úthlutað er til aðildarríkja. Verkefni ESA eru mörg og þjóna þeim tilgangi að hagnýta geiminn og að auka þekkingu á jörðinni, sólkerfinu og alheiminum.
Ljóst er að mikil tækifæri liggja í þessu samstarfi enda var velta evrópska geimiðnaðarins 5.2 milljarðar evra árið 2001. Jafnframt er talið að árið 2020 muni geimiðnaðurinn svara til 10% af landsframleiðslu Evrópu. Hér er því um mikla fjármuni að ræða og einstakt tækifæri til eflingar íslensks hátæknisamfélags.
Þátttaka Íslendinga er alls ekki fjarstæðukennd hugmynd þrátt fyrir að líklega sé langt í næsta íslenska geimfara. Kappsemi hefur ríkt í stóriðjuframkvæmdum og varfærni hefur einkennt nýsköpun íslensk atvinnulífs á undanförnum árum en nú er kominn tími til að skipta um vallarhelminga og sýna varfærni í stóriðjuframkvæmdum og kappsemi í hátækni og nýsköpun til að tryggja áframhaldandi aukinn hagvöxt og bætt lífsskilyrði. Íslenskar geimrannsóknir eru tilvalin sókn í seinni hálfleik.
- Einkaframtakið er umhverfisvænna - 10. maí 2007
- Framlagið þitt - 6. desember 2005
- Skotnar snyrtivörur - 6. október 2005