Leið til friðar

Er einhvern tíman hægt að réttlæta girðingu á milli ólíkra hópa? Getur sú staða komið upp að besta lausnin og ef til vill eina lausnin sé að hólfa fólk niður?

George Bush hefur lagt til, fyrstur forseta Bandaríkjanna, að sjálfstætt ríki Palestínu verði myndað í náinni framtíð. Þetta er vissulega skref í rétta átt þótt margt þurfi að gerast áður en tillagan verður að veruleika. Um leið og ríkið hefur verið myndað með ákveðnum landamærum verður erfitt að snúa þróuninni við, en samkvæmt ræðu Bush er um bráðabirgðalausn að ræða. Sú krafa sem Bush gerir um að Palestínumenn kjósi sér nýja leiðtoga sem tengjast ekki hryðjuverkum hlýtur að teljast eðlileg, enda er augljóst að Arafat hefur misst öll tök á sínu fólki auk þess sem nýjar fréttir benda til þess að hann hafi nýlega fjármagnað sjálfsmorðsárásir. Það er þó vissulega undir Palestínumönnum komið hvort það gerist og varhugavert af Bush að takmarka stuðning Bandaríkjanna við kosningaúrslit sem þeim þóknast.

Ariel Sharon hefur sér engar málsbætur og sjálfsagt og eðlilegt að farið verði fram á afsögn hans og að nýjir og umburðarlyndir leiðtogar taki við Ísraelsríki. Verði það hins vegar gert undir þeim formerkjum að draga skuli Sharon fyrir stríðsglæpadómstól hlýtur Arafat að fara sömu leið. Það eru engin haldbær rök fyrir því að annar eigi að vera dæmdur af alþjóðakerfinu en hinn ekki, þrátt fyrir að Arafat hafi furðulega mikla samúð á Vesturlöndum.

Flestir vita að stjórnvöld í Ísrael hafa lagt fram tillögu þess efnis að reisa girðingu á Vesturbakkanum. Fjölmargir hafa gagnrýnt tillöguna með vísun til Berlínar og þess aðskilnaðar sem samnefndur múr stóð fyrir. Ísraelskir harðlínumenn eru á móti veggnum því þeir líta á hann sem framtíðarlandamæri Ísrael og sjálfstæðs ríkis Palestínu en aðrir, til að mynda Simon Perez, óttast þá neikvæðu umfjöllun sem hann mun fá á alþjóðavettvangi. Það er skiljanlegt að menn staldri við og íhugi afleiðingarnar, einkum í ljósi yfirlýsingar Bandaríkjaforseta.

En hvað stendur þessi veggur fyrir í raun og veru? Er hægt að líkja honum á einhvern hátt við Berlínarmúrinn og þann hugmyndafræðilega aðskilnað sem hann stóð fyrir? Veggurinn er klárlega notaður til að greina á milli mismunandi hugmyndafræði og til að halda uppi nokkurs konar landamæraeftirliti. Hann á eftir að verða jafnumdeildur og múrinn og líklegt er að nokkuð mannfall verði þegar menn reyna að laumast yfir.

Veggurinn er hins vegar í mjög veigamiklum atriðum frábrugðinn múrnum og þessi atriði gera það að verkum að friðelskandi menn ættu að fagna slíku mannvirki. Það skal tekið fram áður en lengra er haldið að þeir sem aðhyllast svipaða hugmyndafræði og pistlahöfundur eru venjulega á móti múrum, hindrunum og takmörkunum á ferðafrelsi en því miður virðist það vera eina lausnin á erfiðri deilu. Fyrir það fyrsta þá er veggurinn ekki byggður til að halda fólki inni, heldur til að halda fólki úti. Ekki bara einhverju fólki heldur palestínskum hryðjuverkamönnum sem telja það vænlegustu leið til friðar að sprengja sig í loft upp með sem flestum saklausum borgurum. Þessar viðbjóðslegu árásir, sem virðast njóta sífellt meiri skilnings á Vesturlöndum, er ekki hægt að réttlæta með neinum rökum.

Í öðru lagi þá mun veggurinn ekki skilja að fjölskyldur og vini heldur ólíkar þjóðir með ólíka hugmyndafræði. Ótti ísraelskra öfgamanna er á rökum reistur því veggurinn verður ef til vill að landamærum síðarmeir. Það væri jákvæð þróun sem myndi stuðla að friði og stöðugleika á svæðinu.

Í þriðja lagi verður erfitt fyrir Ísraela að rökstyðja lögreglueftirlit og hersetu á svæði Palestínumanna þegar heill veggur á að tryggja það að hryðjuverkamenn komist ekki inn á ísraelsk svæði. Vonandi verður það til þess að Palestínumönnum takist að byggja upp eðlilegt samfélag án þess að Ísraelar hólfi þá niður. Það er besta leiðin til að reisa efnahaginn úr rústunum, tryggja sem flestum atvinnu og lágmarks samfélagsþjónustu.

Girðingin sem svo margir eru á móti gæti reynst farsælasta skrefið sem stigið hefur verið í blóðugri sögu svæðisins. Það er hins vegar undir okkur komið hvort fjallað verður um hana sem leið til friðar eða enn eitt skrefið til aukins aðskilnaðar og sundrungar á svæðinu. Ég mæli hiklaust með fyrri útskýringunni.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)