Flestir hægrimenn sem hafa efasemdir um Evrópusambandið hafa þær ekki vegna þess að þeir séu endilega ósammála þeim grundvallarmarkmiðum sem það byggist á. Flestir þeirra eru sammála um að afnám viðskiptahindrana og frjáls flutningur fólks, fjármagns og vöru, sé ákaflega eftirsóknarverð markmið. Af þessum sökum telja flestir hægrimenn á Íslandi það heppilegt fyrirkomulag sem nú er; að við séum hluti af fríverslunarsvæði Evrópu, en ekki tollabandalaginu Evrópusambandinu.
Stækkun Evrópusambandsins, og þar með hins sameiginlega markaðar, hefur ákaflega jákvæð áhrif á alla aðila. Um gildi frjálsrar verslunar þarf ekki að fjölyrða í þessum pistli og verður lesendum því hlíft við dæmisögum um Róbinson Krúsó og Frjádag í þetta sinn, enda má gera ráð fyrir því að þeir sem ekki eru í grunninn til hlynntir frjálsri verslun séu hvort sem er ólíklegir til þess að lesa þetta vefrit – hvað þá taka nokkuð mark á því.
En því miður hefur hið ákaflega skynsamlega markmið um frjálsa verslun stöðugt fjarlægst kjarnann í hinni svokölluðu „samrunaþróun“ Evrópu. Hin pólitíski samruni verður stöðugt fyrirferðarmeira viðfangsefni svo sem merkja má á áhersluatriðum Leiðtogaráðsfunda og annarra mikilvægra samkvæma á vegum Evrópusambandsins.
Og nú er það helst að frétta úr þessum samkvæmum að gestirnir gátu ekki sæst á það hvernig valdahlutföll í framkvæmdastjórn Sambandsins og Ráðherraráði skyldu vera; auk þess sem deilt er um það hvort kristinn siður skuli sérlega tilgreindur sem einn hornsteina Evrópusambandsins.
Ljóst er að hvorugt þessara mála væri í umræðunni ef Evrópusambandið væri í raun að þróast í þá átt sem heppilegast væri – þ.e. að styrkja það enn frekar í því hlutverki sínu að stuðla að aukinni hagsæld með frjálsri verslun.
Nú er allt útlit fyrir að nokkurn tíma taki fyrir leiðtoga Evrópusambandsríkjanna að komast að niðurstöðu um drög að stjórnarskrá og ekki er víst að henni verði tekið með opnum örmum í aðildarlöndunum, sem sum hver munu kjósa um fullgildingu hennar.
Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórinar ESB, hefur sagt að höfnun á nýrri stjórnarskrá jafngildi úrsögn úr Evrópusambandinu. Með þessari ógeðfelldu hótun eru send skýr skilaboð frá embættismannaveldinu í Brussel: „Við erum tilbúnir að fórna öllu hinu jákvæða við Evrópusambandið til þess að tryggja það að okkar hugmynd um Evrópusambandið nái fram að ganga.“
Það sem er heillandi við Evrópusambandið er að sú hugsun að tilvera þess auki frelsi fólks, dragi úr þjóðernisrembingi og stuðli að almennir velsæld. Og helsta afrek Evrópusambandsins hingað til hefur einmitt verið að auka frelsi og draga úr eyðileggingarmætti stjórnmálamanna með því að hefta möguleika þeirra á ýmis konar óeðlilegum ríkisafskiptum. Evrópusambandið getur m.ö.o. haft þann kost að neyða ríkisstjórnir til að sætta sig við minni völd. Ákveðnum hluta af valdi stjórnmálamanna hefur einfaldlega verið eytt.
Hægrimenn hafa auðvitað flestir fagnað þessari þróun mjög – en á síðasta áratug virðist hins vegar sem Evrópusambandið hafi tekið nýjan meginkúrs. Nú virðist stefnan ekki vera sú að fjarlægja stjórnmálavald heldur að flytja það til.
Og í þessu er falin helsta ástæða þess að frelsisunnendur geta illa fellt sig við ýmislegt í Evrópusambandinu. Þeir sem vilja takmarka sóun ríkisins geta illa fellt sig við þá hugmyndafræði að betra sé að ókosnir embættismenn í yfirþjóðlegri stofnun stjórni sóuninni heldur en ríkisstjórnir ríkjanna.
Hinar hörðu deilur um atkvæðavægi benda til þess að hagsmunagæsla sé orðin alltof fyrirferðarmikill hluti af starfsemi Evrópusambandsins og deilan um hvort nefna skuli kristna trú í stjórnarskrá er auðvitað einnig dæmi um hversu bjánalega langt menn eru komnir frá því sem máli skiptir.
Þróun Evrópusambandsins hefur verið mishröð og stundum hefur stöðnun ríkt á þeim vettvangi um langa hríð. Þróunin á síðustu tuttugu árum eða svo hefur hins vegar verið mjög hröð; sérstaklega eftir að Maastricht sáttmálinn tók gildi.
Þau vandamál sem nú steðja að Evrópusabambandinu er kannski merki um það að kominn sé tími til þess að taka pottinn af hellunni um hríð og láta frekari hugmyndir um samruna bíða um sinn.
Hið fjölmarga jákvæða sem Evrópusambandið hefur stuðlað að má ekki falla í skuggann á einhverjum óróa í þeim sem telja Evrópusambandið vera markmið í sjálfu sér. Þeim framförum, sem orðið hafa með tilkomu sameiginlegs markaðar í Evrópu, má ekki fórna fyrir smærri markmið; svo sem draumsýnir embættismanna um Bandaríki Evrópu. Tími þeirrar hugmyndar er einfaldlega langt frá því að vera kominn.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021