Á jólunum minnumst við fæðingar lítils barns. Það fæddist í fjárhúsi inn í fátæka litla fjölskyldu og var lagt í jötu. Þetta var „venjulegt“ barn. Lítill drengur sem grét og gladdist, hvíldi í örmum móður sinnar, drakk af brjósti hennar og uppgötvaði heiminn í fyrsta skipti sem mannvera. Litli drengurinn var hins vegar ekki bara mannvera. Víst kom hann í heiminn sem maður en hann var guðleg vera. Hann var Guð.
Hina töfrandi frásögn af fæðingu frelsarans sem er að finna í Lúkasarguðspjalli þekkjum við flest, ef ekki öll. Sagan af fæðingu hins eingetna barns, af englasöngnum og gleði og þakklæti hirðanna veitir okkur fallega mynd af því mikla kraftaverki sem gerðist þetta kvöld í Betlehem forðum daga. En fæðing þessa litla barns átti sér langa forsögu. Þetta var ekkert venjulegt barn. Fæðing barnsins var upphafið á frelsun okkar mannana. Hún var upphafið á uppfyllingu loforðs sem mannkyninu hafði verið gefið löngu fyrir hina fyrstu jólanótt.
Fyrsta sunnudag í aðventu er á flestum heimilum kveikt á fyrsta kerti aðventukransins. Það kerti ber í kirkjunni nafnið „spádómskertið“ og er ætlað að minna okkur á spádóm þann um fæðingu Jesú sem er að finna í bók Jesaja.
„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingdómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“
Jesaja, 9:6.
Í þessum orðum felst loforðið. Litla barnið sem fæddist í Betlehem fæddist ekki bara móður sinni Maríu og fóstra sínum Jósep. Í spádómnum segir að barnið hafi fæðst okkur. Okkur var gefinn sonur, sonur Guðs. Þann spádóm staðfestu englarnir hina fyrstu jólanótt er þeir boðuðu hirðunum fagnaðarerindið. Þeir sögðu: „Yður er í dag frelsari fæddur.“
Hringurinn á aðventukransinum er tákn eilfíðarinnar og því vel við hæfi að fyrsta aðventukertið eigi að minna okkur á það loforð sem fæðing Jesúbarnins raunverulega felur í sér. Litla barnið í jötunni var líklegast eins umkomulaust að sjá og öll önnur lítil börn. Það hafði þörf fyrir elsku og umhyggju móður sinnar sem reifaði það og lagði í jötuna. Þetta litla barn var eins og við vorum sjálf. Á jólum minnumst við þess sem gerir okkur svo auðvelt að trúa því að fæðing Jesú hafi verið ætluð til bjargar okkur, þrátt fyrir ófullkomleika okkar. Við minnumst á jólum barnsins sem fæddist við erfiðar aðstæður og þarfnaðist verndar foreldra sinna.
Drengurinn í jötunni var þó einnig annað og meira. Hann skyldi bera höfðingdóminn. Hann var Undraráðgjafinn og Guðhetja. Hann var Eilífðarfaðir og Friðarhöfðinginn. Hann var sá sem lofað hafði verið. Hann er sá sem lofað var.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008