Frá því svokölluð „Stasi skýrsla“ var kynnt og lögð fyrir forseta Frakklands, Jacques Chirac þann 11. desember síðastliðinn biðu Frakkar með eftirvæntingu eftir viðbrögðum forsetans. Í skýrslunni er lagt til að trúarmerki, sem eru augljós og vekja athygli, verði bönnuð í opinberum skólum. Sérstaklega er talað um að banna slæðuna (hijab) sem múslima konur bera, þó alltaf sé tekið fram að það sama eigi við um trúarmerki kristinna manna og gyðinga. Ekki verður þó amast við því að fólk beri lítil tákn eða auðkenni svo sem krossa um hálsinn eða Davíðsstjörnuna. Jacques Chirac ávarpaði þjóðina á miðvikudaginn um efni skýrslunnar og kynnti stefnu sína um aðskilnað ríkis og kirkju.
Forsetinn tók heilshugar undir þær hugmyndir sem lagðar voru fram í Stasi skýrslunni um að banna augljós trúarmerki í skólum. Hins vegar hafnaði hann öðrum hugmyndum sem þar komu fram, s.s. um að helgir dagar múslima og gyðinga yrðu frídagar í skólum landsins, en lagt var upp með það í skýrslunni sem mótvægi við banninu.
Eins og við var að búast hefur skýrslan og ræða forsetans vakið mikil viðbrögð. Margir taka undir hugmyndirnar og sýna skoðanakannanir að um 57% þjóðarinnar er fylgjandi því að slæðan verði bönnuð. Aðrir, með talsmenn trúarfélaga í broddi fylkingar, telja að lögin séu skref aftur á bak og menn hafi misst sjónar á raunverulegum vandamálum samfélags múslima sem hafi lítið með slæðuna að gera. Enn aðrir eru tvístígandi í afstöðu sinni og finnst mörg góð rök vera færð fram fyrir því að banna slæðuna en hins vegar sé það ógnvekjandi að í lýðræðisþjóðfélagi muni líklega koma til þess að mönnum verði bannað að tjá trúarbrögð sín eða klæða sig á þann hátt sem þeim sýnist.
Almennt er talið að múslimar í Frakklandi (um 5 milljónir) séu mótfallnir hugmyndunum og hafa margir leiðtogar múslima í landinu (nær eingöngu karlmenn) komið fram og mótmælt hugmyndunum. Margar múslima konur sem hafa barist fyrir kvenréttindum eru hins vegar fylgjandi hugmyndunum og benda á, eins og margir aðrir, að ekkert í Kóraninum geri kröfu til þess að konur beri slæðuna. Um sé að ræða menningarlegt fyrirbæri frekar en iðkun trúarinnar og lög sem þessi myndu bæta stöðu múslima kvenna í samfélaginu.
Frakkar hafa í mörg ár barist við ýmis konar vandamál tengd aðlögun múslima að vestrænum háttum samfélagsins. Má þar nefna sem dæmi andstöðu við að múslima stúlkur taki þátt í leikfimitímum með jafnöldrum sínum og það þegar múslima konur (eða eiginmenn þeirra) banna að karlkyns læknir annist konuna. Margir Frakkar líta á þetta sem ógn við frelsið, jafnréttið og bræðralagið sem er þeim heilagara en nokkuð annað.
Annað sem veldur mönnum áhyggjum er sú alkunna hugmynd að slæðan sé á einhvern hátt táknræn fyrir kúgun og undirgefni sem konur þurfa að þola í sumum samfélögum múslima, hvort sem er á vesturlöndum eða annars staðar. Óumdeilanlega eru margar konur og ungar stúlkur neyddar til að bera slæðuna. Hins vegar eru aðrar sem bera hana af sjálfsdáðum án þess að fjölskylda þeirra geri kröfu til þess og dæmi eru um stúlkur sem eru fæddar og aldar upp í Frakklandi og eiga mæður sem hafa aldrei borið slæðuna, taki upp á því sjálfar að bera hana. Þær eru stoltar af trú sinni og uppruna og vilja sýna samstöðu með múslimum um heim allan sem þær telja að hafi orðið fyrir álitshnekki í hinum vestræna heimi í kjölfar 11. september 2001. Það er hins vegar ógnvekjandi að notkun slæðunnar hefur einnig aukist á undanförnum árum vegna aukins fylgis við öfgasamtök múslima í Frakklandi og öðrum vestrænum löndum, s.s. Bretlandi.
Í ljósi ræðu forsetans eru yfirgnæfandi líkur á því að lög um bann við augljósum trúarmerkjum í opinberum skólum verði lögð fram fljótlega. Þótt á þessu stigi sé einungis talað um að banna trúarmerki í skólum hefur komið fram að víðtækara bann, s.s. í opinberum byggingum eða á almannafæri, gæti komið til síðar. Þetta er erfitt og tilfinningaþrungið mál sem verður vandasamt fyrir frönsku þjóðina að leysa og ljóst að hvernig sem fer munu aldrei allir vera sáttir. Rökin fyrir því að banna augljós trúarmerki eru tilraun til að ráðast á raunverulegt vandamál en rökin á móti lögunum eru að slíkt yrði höft á frelsi manna til að tjá trú sína og klæða sig eins og þeim sýnist.
Það er auðvelt fyrir okkur að afgreiða hugmyndir forsetans sem hreint og klárt mannréttindabrot. En á hinn bóginn höfum við lítinn skilning á vandamálinu og því erfitt að dæma stefnuna á einu bretti. Lögin gætu hugsanlega hjálpað fjölda múslima stúlkna að sleppa undan kúgun í nafni íslams og að aðlagast vestrænu samfélagi. Franska þjóðin virðist a.m.k. ekki ætla að sætta sig við að augljós greinarmunur sé á kvenkynsnemendum í skólum landsins eftir trúarbrögðum og uppruna þeirra.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020