Í nýlegri leit að tónlistarheimildum í gömlum íslenskum handritum fannst fjöldinn allur af kvæðum og lagabútum, sem með betrumbót hafa nú verið gefin út. Þykja heimildirnar sýna svo ekki verði um villst að á Íslandi hafi verið sungið frá fjöru til fjalla á öldum áður.
Einhvern tíma var sagt að auðveldara sé að skilja þjóð með því að hlusta á tónlist hennar og söng, en að læra tungu hennar. Þetta mætti í það minnsta segja að hljóti að vera gefið mál þegar íslenskan er annars vegar! En kannski er eitthvað til í þessu.
Hvaða stemmning finnst manni þá einkenna þjóð ef reynt er að skilgreina hana útfrá tónlist? Svo ég svari fyrir sjálfa mig í fullkominni einföldun þá þykir mér t.d Írinn vera tápmikill, Skotinn vera tregafullur, Finninn vera hörkutól, Spánverjinn dulúðlegur, Frakkinn ástríðufullur og reyndar íbúar Suður-Ameríku lostafullir allir sem einn.
En hvað með Íslendinginn. Hvað er séríslenskt, og hver er hljómurinn, dansinn eða söngurinn sem skilgreinir hann?
Hmmm. Ég sé gömlu dansana og ég sé harmonikku. Gott ef að ímyndin öll er ekki umvafin lopa. Nei, fæ einhvern veginn ekki út skilgreiningu sem gaman væri að falla undir.
En þetta er heldur kannski ekki alveg það sem telst ‚íslenskt í dag’og því síður það sem er þekkt sem íslenski hljómurinn. Til hans myndu líklegast tónar Bjarkar eða Sigurrósar teljast. Það er hinsvegar öldungis ágætt, enda um margt fýsilegur kostur að teljast þá í fullkominni einföldun t.d vera framúrstefnulegur og öðruvísi. Eða vogaður og þunglyndislegur svefngengill!
En að flestu gamni slepptu þá hefur verið sungið hér frá fjöru til fjalla svo öldum skiptir og við hljótum að teljast með söngelskari þjóðum. Hlutfallslegan fjölda kóra á landinu mætti sjálfsagt telja til fyrirbrigða. Þetta virðist einnig brenna við hjá Íslendingum búsettum erlendis að það er vart að nokkrar íslenskar hræður geti komið saman án þess að stofnaður sé kór.
En þetta er líklega bara hið besta mál. Það mætti kannski segja að Íslendingurinn tjái í meira lagi með tónlist og söng það sem hvorki er unnt að segja né þegja um. Hann hefur á tíðum verið stimplaður kaldur, jafnvel bældur og einmitt í þessu liggur kannski ástæðan fyrir landlægri þörfinni til að koma saman og gefa frá sér búkhljóð af innlifun. Kannski ekki. Hvað sem því líður þá ómar enn tónlist frá fjöru til fjalla, og er það vel.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007