Jólastress

Á sjálfri Þorláksmessu nær jólaösin hámarki. Fólk þýtur um allan bæ: þarf að borða fisk sem búið er að pissa á, þarf að klára að kaupa í matinn, klára að kaupa gjafirnar, skreyta jólatréð og svo njóta hinnar ósviknu jólastemningar í miðborg Reykjavíkur um kvöldið.

Nú eru 59 klukkustundir þar til jólabjöllurnar í Hólakirkju hringja jólin inn. “Tveir dagar og maður á eftir að gera allt”, heyrist víða um landið þessa stundina. Það er í raun ótrúlegt hvað fólk þarf alltaf að gera mikið fyrir jólin. Það er eins og þetta sé eini tími ársins til að ganga frá hlutum sem hafa setið á hakanum allt of lengi. Það þarf að klára að mála ómáluðu hlutina, innrétta óinnréttuðu herbergin o.s.frv. Sökum þessa er álagið á marga í jólamánuðinum margfalt. Að auki þarf að sjálfsögðu að kaupa gjafir, baka, fara á jólahlaðborð, hengja upp jólaljós, skreyta, baka tvær sortir í viðbót, skrifa jólakort, pakka inn, bæta við einni sort, undirbúa jólaboðin og taka til.

Það er eflaust ófáir sem kannast við þessa lýsingu hér að ofan. Dæmalaust í rauninni að flestum takist að fara í gegnum þennan lista og klára allt sem á honum er. Fólk er að sjálfsgöðu misöfgafullt, á meðan sumum nægir að hengja 10 ljósa seríu í birkitréð í heimreiðinni, eru aðrir sem dútla sér við það allan jólamánuðinn að lýsa upp hverja einustu hríslu í garðinum. Í fréttum um daginn sagði frá ágætum manni í Hafnarfirði sem eyddi tveimur vikum í að skreyta garðinn hjá sér með marglitum perum til að lýsa upp skammdegið í jólamánuðinum. Margir kannast einnig við brjálæðinginn við Bústaðaveginum en ofurskreytt híbýli hans vekja svo mikla athygli vegfarenda að umferðin um Bústaðaveg gengur þrefalt hægar í desember en aðra mánuði ársins.

Það er ekki nóg með að fólk hafi mjög langan aðgerðalista í desember heldur er fjárhagurinn, eðli málsins samkvæmt, erfiðari en flesta aðra mánuði ársins. Fólk vinnur því myrkranna á milli við að næla sér í nokkrar aukakrónur svo hægt verði að leyfa sér þann munað að hafa sykuhúðuð jarðepli með jólasteikinni í stað gufusoðinna kartaflna hversdagsins. Að teknu tilliti til alls þessa nær það því ekki nokkurri átt að fólki takist að halda gleðileg jól, jólastressið ætti að vera löngu búið að koma í veg fyrir það. Hvernig fer t.a.m. galni Hafnfirðingurinn að þessu? Hver getur leyft sér að skreyta húsið sitt í tvær vikur í desember? Ætli maðurinn sé ekki í vinnu? Kannski á hann ríflegan kaupréttarsamning eða fékk eftirlaunaívilnun um daginn? Hann hlýtur í það minnsta að eiga góða að sem sjá um öll önnur atriði á aðgerðalistanum.

Á sjálfri Þorláksmessu nær jólaösin hámarki. Fólk þýtur um allan bæ: þarf að borða fisk sem búið er að pissa á, þarf að klára að kaupa í matinn, klára að kaupa gjafirnar, skreyta jólatréð og svo njóta hinnar ósviknu jólastemningar í miðborg Reykjavíkur um kvöldið.

Þorláksmessa er einnig að vissu leyti dagur andstæðnanna. Fyrri hlutinn einkennist af mikilli taugaveiklun en eftir friðargönguna um Laugaveginn er eins og að stresssperrtir líkamarnir koðni niður og kæruleysið taki við þannig að jólagleðin skín af flestum andlitum (nema þeirra sem kaupa allar gjafirnar í þeirri verslun sem er næst þeim kl. 22:50 á Þorláksmessu). Fólk róast þegar líður á kvöldið. Hvort það er jólaglöggin eða jólabjórinn, skal ósagt látið, en það er eins og að loksins hafi fólk áttað sig á því að baráttan við stressið er töpuð. Það er því ekkert annað að gera en að reyna að halda gleðileg jól jafnvel þótt óinnréttaða herbergið bíði enn eftir nauðsynlegri andlitslyftingu.

Gleðileg jól!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)