Undanfarið hefur verið mikið rætt um ritmiðla, en minna hefur verið rætt um miðla á netinu. Í allri umfjöllun um fækkun miðla hefur gleymst heil flóra af miðlum, en það eru netmiðlarnir. Á punktur-is tímanum komu fram fjölmargir vefmiðlar, bæði fréttamiðlar og aðrir afþreyingarmiðlar. Allir ætluðu að verða ríkir á því að bjóða eitthvað á netinu.
Var mikið rætt um þær breytingar sem voru að eiga sér stað og jafnframt hugsanleg endalok hefðbundinna prentamiðla. Voru það sérstaklega frjálsir blaðamenn sem héldu úti eigin miðli eða áhugamenn sem gætu náð að koma með aðrar sýnir á máli. Miðlarnir voru jafnframt mjög sérhæfðir, með upplýsingar sem eingöngu mjög afmarkaður hópur gatt nýtt sér. Viðskiptahugmyndirnar voru mjög oft miðaðar að sölu auglýsinga eða sölu á einhverjum hliðarvarningi. Allt átti að vera ókeypis, svo ekki voru rukkuð nein áskriftargjöld.
Lítið hefur orðið af þessum eins manns fjölmiðlum, flestir vefjanna hafa dottið uppfyrir, aðrir virðast hafa dagað uppi án mikillar virkni, eigendum sínum til skammar og að lokum eru nokkrir sem lifa mjög góðu lífi.
Reynar er það þannig nú að einungis einn stór fréttamiðill stendur upp úr og það er mbl.is. Áður voru fleiri sem kepptust að vera fyrstir með fréttirnar og gengu á milli miðla gagnrýni að menn hafi falsað útgáfutímann til að vera fyrstir með fréttirnar. Vefirnir voru uppfærðir stöðugt yfir daginn og fór fólk jafnvel oft á dag inn til að sjá hvort eitthvað nýtt væri í gangi.
Nú þegar mbl.is er nánast orðinn einn um fréttirnar, eru eigendur vefsins sjálfsagt farnir að velta mjög mikið fyrir sér hvernig hægt er að hagnast meira á vefnum. Mbl.is er að nokkru leyti í samkeppni við stóra bróður sinn, en mjög margt ungt fólk hefur einmitt vanið sig á að lesa fréttirnar á netinu frekar en að vera áskrifendur að blaðinu. Öðrum finnst nóg að fá Fréttablaðið frítt inn um lúguna.
Upphaflega átti allt að vera ókeypis en nú hafa sífellt fleira bæst í hóp miðla i bylgju sem hefur oft verið kölluð “the end of free” eða endalok ókeypis vefmiðla. Margir erlendir miðlar hafa farið er að selja aðgang að vefmiðlinum, þá annað hvort að hluta t.d. að einstökum greinum, fréttum eða umfjöllunum, eða að öllu leyti. Sjálfsagt hafa eigendur mbl.is velt því mikið fyrir sér að undanförnu hvort ekki sé kominn tími fyrir þá að græða meira á vefnum, þeir virðast vera með stöðu til þess núna.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020