Það má með sanni segja að síðasta vika hafi verið viðburðarrík. Engin gúrkutíð hjá fréttamönnum þessa stundina. Eftirlaunafrumvarpið fræga, handtaka Saddam Hussein og síðast en ekki síst andlát Keiko.
Já – það er víst við hæfi að segja „andlát“ af þessu tilefni, jafnvel þó um slíkt sé venjulega ekki notað um óæðri spendýr en mannskepnuna, enda hefur ekki verið komið fram við hann sem slíkt. Fyrirsögn mbl.is í frétt þeirra um lát Keiko var í sama dúr og hljóðaði á þessa leið „Háhyrningurinn Keiko allur.“ Háhyrningurinn frægi lést í Taknesbugt í Noregi síðastliðin föstudag af völdum bráða lungnabólgu. Keiko var þá ekki nema rétt í kringum 26 ára aldur en í ofangreindri frétt mbl.is segir að meðalaldur villtra háhyrninga sé um 35 ár.
Keiko er talinn hafa fæðst við strendur Íslands árið 1978 eða 1977. Hann veiddist á þeim slóðum árið 1979 og var seldur í sædýrasafn. Árið 1982 hóf Keiko svo að leika listir sínar í sædýrasafninu Marineland í Ontario í Kanada. Árið 1985 var fluttist hann í skemmtigarðinn Reino Aventura í Mexico City í skiptum fyrir 350.000 dollara. Snemma á 10. áratugnum gerði fyrirtækið Warner Bros svo myndina Free Willy. Í myndinni er sagt frá ungum dreng sem vinnur að því að frelsa hval að nafni Willy. Willy var að sjálfsögðu leikinn af hinum hæfileikaríka Íslendingi Keiko.
Í framhaldi af miklum vinsældum þessarar myndar var Free Willy/Keiko stofnunin sett á fót. Stofnunin fékk hvalinn að gjöf frá Reino Aventura og hóf miklar og erfiðar endurhæfingar á Keiko til að þjálfa hann til þess að lifa hinu frjálsa lífi háhyrninga. Fyrr en varði var svo Keiko kominn „heim“ til Íslands og hélt til í kví í Klettsvík þar sem enn frekari endurhæfingaraðgerðir fóru fram. Ferðamáti Keiko til landsins var ekki af verri endanum en hann var fluttur hingað með herflugvél, hvorki meira né minna. Það er ekki ólíklegt að margir landsmenn muni eftir hinni eftirminnilegu lendingu herflugvélarinnar á flugvellinum í Vestmannaeyjum, með þeim afleiðingum að sprunga kom í brautina. Mbl segir frá því að aðgerðir þessar allar hafi kostað um 38 milljónir.
Eftir að Keiko fékk endanlegt frelsi slóst hann í för með fleiri háhyrningum í skoðunarferð um hið víðáttumikla haf. Honum virðist þó ekki hafa litist á blikuna í þeim félagskap heldur birtist hann aftur við strendur Noregs tveimur mánuðum seinna og hélt þar til í félagsskap við menn allt þar til hann lést.
Það er líklegast ýmislegt hægt að segja um aumingja Keiko, sem sjálfur hafði lítið að segja um sitt annars viðburðarríka líf. Talsmenn Free Willy/Keiko stofnunarinnar halda því fram að með Keiko hafi almenningsálitið breyst gagnvart því hvort hægt sé að sleppa hvölum sem hafa alist upp á sædýrasöfnum. Ekki er þó að sjá í fljótu bragði að farið hafi fram nákvæmar mælingar á því almenningsáliti. Keiko-aðgerðirnar eins og höfundur kýs að kalla þær kostuðu mikla peninga og virðast ekki hafa skilað miklum árangri. Hvalurinn sem ólst upp hjá mönnum var ekki svo áfjáður í frelsið sem menn vildu vera láta. Það hefði verið fróðlegt að vita hvort „hinn látni“ hefði ekki valið milljónunum annan stað en sína eigin frelsisbaráttu hefði hann haft eitthvað um það að segja.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008