Þann 20. mars á þessu ári, eða fyrir tæpum níu mánuðum, réðust Bandaríkjamenn og Bretar inn í Írak með það að markmiði að koma Saddam Hussein frá völdum. Þetta markmið náðist í gærkvöldi þegar einræðisherrann fyrrverandi var dreginn upp úr 2ja metra djúpri holu skammt fyrir utan heimabæ sinn, Tikrit, lifandi og mótstöðulaust. Paul Bremer, landsstjóri Bandaríkjamanna í Írak, tilkynnti heimsbyggðinni þessi tíðindi á blaðamannafundi í Baghdad með orðunum: „Ladies and gentlemen, we got him.“
Yfirburðir bandamanna í sjálfu stríðinu þurftu ekki að koma á óvart, slíkur er máttur herja þeirra að vanbúnar og illa þjálfaðar hersveitir íraska hersins áttu aldrei möguleika á því að hrinda árásinni. Hernámið sjálft hefur hins vegar reynst þrautin þyngri og kostað mun fleiri hermenn bandamanna lífið en sjálft stríðið, en því er talið hafa lokið með siguryfirlýsingu George W. Bush þann 1. maí á þessu ári.
Síðan þá hafa bandamenn glímt við öfluga og vel skipulagða andspyrnuhreyfingu sem talin er skipuð hliðhollustu stuðningsmönnum Saddams og erlendum málaliðum. Stöðugt mannfall í herjum bandamanna á hernámstímanum hefur gert það að verkum að vaxandi óánægju hefur gætt með Íraksmálið meðal almennings í Bandaríkjunum og á Bretlandi. Viðbúið var að Íraksmálið yrði Bush forseta þungt í skauti í kosningabaráttunni.
En sú staðreynd að bandaríski herinn handsamaði Saddam Hussein í gærkvöldi, dróg hann upp úr holu og sýndi heimsbyggðinni, kann að breyta stöðunni algjörlega. Saddam í höndum bandarískra hermanna er holdi klædd staðfesting á því að herförin var árangursrík, og þá mun litlu máli skipta hvort einhver gereyðingingarvopn – sem voru, ef einhvern rekur minni til, grundvöllur innrásarinnar – muni nokkurn tímann finnast.
Ekkert er eins mikilvægt fyrir stjórnmálamenn eins og sýnilegur og áþfeifanlegur árangur, og árangurinn verður ekki öllu sýnilegri en þegar bandarískur herlæknir tekur stroku úr munnholi Saddams Hussein fyrir framan heimsbyggðina. Ef Bush mun standa uppi sem sigurvegari forsetakosninganna í nóvember á næsta ári, munu atburðir næturinnar við litla bæinn Adwar austur í Írak hafa tryggt honum fjögur ár í viðbót á forsetastóli.
En fyrir utan pólitíska þýðingu þessa atburðar fyrir George W. Bush, hvaða þýðingu mun það hafa að Saddam Hussein skuli nú hafa verið handsamaður?
Í fyrsta lagi er augljóst að menn binda vonir við að draga muni úr andspyrnuhreyfingunni í Írak sem hefur verið bandamönnum svo skeinuhætt fram til þessa. Málsstaðurinn gömlu liðsmanna Hussein er nú glataður. Reyndar má búast við auknum árásum fyrsta kastið en þegar frá líður er ekki ósennilegt að bandamönnum takist að koma á lögum og reglu í landinu. Það yrði eins og kaninn kallar það: „Mission completed“.
Í öðru lagi hefur handtaka Husseins þá þýðingu að nú er hægt að koma yfir hann lögum vegna glæpa hans á valdastóli. Engum blöðum er um það að fletta að Hussein er einn af grimmustu einræðisherrum á síðari hluta 20. aldar. Þeir eru ekki margir slíkir sem þurft að hafa svara fyrir sakir sínar gagnvart lögum og rétti. Nícolae Ceausescu einræðisherra í Rúmeníu og kona hans Elena voru tekin af lífi á jóladag fyrir tæpum fjórtán árum í blóðugri byltingu en Slobodan Milosevic svarar nú til saka fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag. Það yrði mikill sigur fyrir fórnarlömb Saddams Hussein ef hann verður leiddur fyrir rétt vegna glæpa sinna.
Í þriðja lagi mun handtaka Saddams, endanlegt fall hans, hafa djúpstæð áhrif á írösku þjóðina, þjóð sem hefur verið í helgreipum ógnarstjórnar Saddams síðustu áratugi. Eftir allar þær hörmungar sem yfir írösku þjóðina hafa dunið er það kannski fyrst núna sem hún getur horft fram á við, óhrædd við að Saddam og ógnarstjórn hans snúi aftur.
Hún hefur eflaust verið sterk tilfinningin sem barðist um í brjósti þeirra hermanna sem sviptu hulunni af felustað Saddams og sáu á botni holunnar óttasleginn og varnarlausan mann – mann sem svo lengi hafði valdið svo miklum ótta og hörmungum hjá svo mörgum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021