Það er tvennt sem hægt er að ganga að vísu í jólaösinni ár hvert. Í fyrsta lagi er það sú staðhæfing að jólaverslunin fari „óvenjusnemma af stað þetta árið“ og í öðru lagi er það áminningin um hvert „hið sanna inntak jólanna“ sé. Í ár hefur orðið áminingin að mestu farið fram með fulltingi leikskólabarna en undirritaður hefur þegar rekist á tvær dagblaðagreinar þar sem þessir yngstu borgarar sýna flekklausa þekkingu á þessum tiltekna atburði kristinnar trúar.
Þetta er okkur öllum glæsileg sárabót á tímum þegar fjölmiðlamenn nýta hvern einasta lögbundinn frídag til að hlaupa um göturnar og opinbera fyrir almenningi hans eigin vanþakklæti í garð þess að þeirra fornu atburða sem hindra það að hann þurfi að vinna á tilteknum degi. „Já, mikið veit nú fólk fátt,“ hugsar meðalmaður þegar hann horfir á fréttirnar á hvítasunnu.
En bíðum við! Það ekki öll von úti enn. Því að þótt margir haldi að Jesús hafi verið skírður á skírdag, dáið á páskadag og risið upp frá dauðum á uppstigningardag, þó sumir haldi að Ísland hafi fengið sjálfstæði á sumardaginn fyrsta og Ingólfur Arnarson hafi numið land 1. desember 874, þá vita leikskólabörn á Hagaborg að „á jólum eigi Jesús ammæli og þess vegna eru jólin jól.“
Þessi staðreynd er mönnum hvatning til minna en frekar á að þrátt fyrir allar auglýsingarnar og kaupæðið þá snúist jólin og fæðingu Jesú og þakklæti okkar í garð þess atburðar – það vita, jú, jafnvel leikskólabörn.
En þótt áminningin um hið sanna inntak jólanna sé þörf og jákvæð má hún ekki leiða til þess að kristið fólk telji sig á einhvern hátt hafa meiri rétt til að halda þessa hátíð en þeir sem ekki eru kristnir. Því sú athöfn að gefa vinum og ættingjum gjafir til að tjá þeim ást sína og sú athöfn að snæða saman kvöldverð með sínum nánustu eru ekki ótvírætt kristnar athafnir, þótt dæmisagan sem þær rökstyður sé það.
Reglulega þarf trúlaust fólk þarf að svara því hvort það haldi jólin hátíðleg. Hvort það skreyti tré og og skiptist á pökkum eins og annað fólk eða hvort sitji bara bara heima 25. desember og pirri þig yfir því að Ríkið sé lokað og strætóar gangi ekki.
Vitanlega halda flestir Íslendingar jól, sama hversu trúaðir þeir eru. Enda er þessi bjarta hátíð um miðjan vetur skemmtileg leið til að þrauka saman í gegnum versta óveðrið og dimmustu næturnar. Fjölmargir siðir jólanna eiga rætur sínar að rekjur langt aftur í tímann til ýmissa annarra trúarbragða. Það á til dæmis við þá venju að skreyta tré, sem var víst frjósemisathöfn sem af landafræðilegum ástæðum hefur aðallega fest sig við barrtré. Svo ekki sé minnst á íslensku jólasveinana þrettán: Ræna mat og sitja fyrir rollum. Ekkert voðaleg guðspekileg upplifun þar á ferð, enda hefur ekki einu sinni verið gerð nein heiðarleg tilraun til að troða þeim heiðnu andskotum inn í kristilegan búning.
Öllum þeim sem þetta lesa óska ég gleðilegra jóla. Ég vona að allir njóti tímabilsins sem fram undan er á þann hátt sem þeim er vænstur. En um leið vona ég að menn gleymi ekki að engin trú eða lífsskoðun hefur einkaleyfi á hamingju og góðmennsku, þótt ein þeirra henti þeim sjálfum betur en aðrar.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021