Gengi dollarans er nú í sögulegu lágmarki gagnvart evru. Á síðustu tveimur árum hefur gengi dollarans gagnvart evru hrunið um yfir 30%. Í júní 2001 var gengið 0,85 en er nú 1,22. Ekkert lát virðist vera á gengislækkuninni. Hún virðist þvert á móti hafa verið sérstaklega hröð upp á síðkastið. Líklega eru margir sem velta fyrir sér hvort eitthvað vit sé í þessu lága gengi og hversu mikið meira dollarinn getur lækkað.
Eins og fjallað var um hér á Deiglunni 18. júní 2001 var gengi dollarans allt of hátt um það leyti:
Þessi spá hefur nú gengið eftir. Gengi dollarans er því mun nær langtímajafnvægisgildi sínu nú en það var fyrir tveimur árum. Þar að auki virðist vera sem bandaríska hagkerfið sé að taka við sér eftir tveggja ára stöðnun. Hagvöxtur í Bandaríkjunum á þriðja ársfjórðungi þessa árs var yfir 8% á ársgrundvelli, sem er með því hæsta sem mælst hefur.
Þetta tvennt ætti undir venjulegum kringumstæðum að gera það að verkum að gengislækkun dollarans taki að linna. Á móti kemur hins vegar að viðskiptahalli Bandaríkjanna hefur haldið áfram að aukast. Það sem meira er, viðskiptahallinn er í dag að stærstum hluta til kominn vegna fjárlagahalla.
Á síðustu vikum og mánuðum virðist vera sem fjárfestar utan Bandaríkjanna hafi í auknum mæli fengið sig fullsadda af því að kaupa bandarískar eignir. Til þess að fjármagna núverandi viðskiptahalla þurfa erlendir aðilar að kaupa bandarískar eignir fyrir 2 milljarða dollara á hverjum virkum degi. Ef eitthvað stendur á þessum kaupum þá leiðir það til þess að dollarinn lækkar í verði.
Mikil gengislækkun dollarans mun á endanum leiða til þess að viðskiptahalli Bandaríkjanna dregst saman. Reynsla annarra þjóða bendir hins vegar til þess að afskaplega stórar sveiflur í genginu þurfi til þess að eyða viðskiptahalla sem er 5% af VLF.
Það eru því talsverðar líkur á því að gengi dollarans haldi áfram að lækka. Gengi dollarans mun líklega fara yfir 1,3 og jafnvel yfir 1,35 á næstu tólf mánuðum. Til lengri tíma má hins vegar gera ráð fyrir að dollarinn hækki aftur í nokkurn veginn 1,2.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009